133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

framhald umræðu um RÚV.

[11:10]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætlaði aðeins að greiða fyrir þingstörfum. Nú er klukkan u.þ.b. 10 mínútur yfir 11 og ég vildi rifja það upp að í gær var rætt hér um fundarstjórn forseta og þá stóð bunan út úr þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem kvörtuðu yfir því að ekki væri hægt að ræða mikilvæg málefni eins og málefni Byrgisins. Á það var síðan fallist að rætt yrði um málefni Byrgisins utan dagskrár og fundur var settur í dag fyrir þremur korterum þar sem boðað er að það eigi að ræða málefni Byrgisins, en þá skyndilega liggur hv. þm. Ögmundi Jónassyni ekkert á að ræða það mikla þjóðþrifamál frekar en öðrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Nei, nei, þeir koma hérna hver á fætur öðrum upp í ræðustól Alþingis og halda áfram þessu grímulausa málþófi sem hefur staðið hérna síðan á mánudaginn.

Ég leyfi mér að fullyrða að almenningi sem fylgist með þessum þingstörfum — það eru u.þ.b. 4.000 manns á hverjum degi sem fylgjast með beinum útsendingum hér og reyndar fleiri úti í þjóðfélaginu — er svo misboðið að sjá í hvaða stöðu þjóðþingið er, sjá hvernig stjórnarandstaðan hefur hneppt Alþingi Íslendinga í gíslingu, (Gripið fram í: Hættu að tala niður …) þingmenn stjórnarandstöðunnar. Hv. þm. Ögmundur Jónasson er þar ekki undanskilinn, (Gripið fram í: Fremstur í flokki.) er líklega fremstur í flokki (Gripið fram í.) við að koma óorði á Alþingi. Þeir hafa orðið sjálfum (Gripið fram í.) sér til skammar, þeir hafa (Forseti hringir.) komið óorði á lýðræðið. Frú forseti. Nú legg ég til að hæstv. forseti minni hv. þingmenn á það að þeir vilja hér ræða um önnur þjóðþrifamál en Ríkisútvarpið, að þeir fái þá að gera það og (Forseti hringir.) það hlýtur að vera hægt að fá þá til þess að ljúka þessari umræðu með einhverjum hætti. Alþingi er stórskaðað af þessari framkomu þeirra.