133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

málefni Byrgisins.

[11:24]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Sú umræða sem orðið hefur á síðustu dögum um málefni Byrgisins og starfsemina sem þar hefur verið sinnt dregur athyglina að stöðu þessa málaflokks í samfélaginu. Hún dregur athyglina að því hvernig samfélagið sem heild axlar ábyrgð á fólki sem einhverra hluta vegna getur ekki átt samleið með eðlilegum hætti í samfélaginu um lengri eða skemmri tíma. Allt er þetta fólk meðborgarar okkar og á sama rétt og við öll, hver og einn. Þetta finnst mér gleymast í þeirri umræðu sem nú fer fram. Þessi ábyrgð virðist líka gleymast í umræðunni sem hér á sér stað í boltakasti á milli ráðherra og einstakra stofnana á vegum ríkisins.

Í skýrslu sem unnin var af sérfræðingi um starfsemi Byrgisins og utanríkisráðherra vitnaði til í janúar 2002 segir svo, með leyfi forseta:

„Í heild er um einstaklinga að ræða sem eru félagslega, tilfinningalega og líkamlega illa farnir af misnotkun vímugjafa og þurfa því á að halda langtímaendurhæfingu og í sumum tilvikum langtímaathvarfi og -búsetu. Vegna þessa virðist Byrgið þjóna margháttuðu hlutverki.“

En í umsögn læknis, Þórarins Tyrfingssonar er ítrekað, eins og þarna kemur fram, að þarna er um sjúklinga að ræða. Þess vegna spyr ég: Á hvaða forsendum tók forsætisráðherra þá ákvörðun að þessi málaflokkur og starfsemi Byrgisins skyldi fara undir félagsmálaráðherra en ekki undir heilbrigðisráðherra eins og skýrslan öll (Forseti hringir.) sem hann hafði undir höndum og hafði verið haldið leyndri fyrir fjárlaganefnd benti til, (Forseti hringir.) að þetta væru sjúklingar sem ættu heima á verksviði heilbrigðisráðuneytisins? Ég spyr um faglegar (Forseti hringir.) forsendur þegar þessi ákvörðun var tekin, frú forseti.