133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

málefni Byrgisins.

[11:29]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Auðvitað eru fjármálin ekki aðalatriði í þessu máli heldur sá mannlegi harmleikur sem átti sér stað á meðferðarheimilinu. Það skiptir náttúrlega miklu í framhaldinu af þessu máli að leyst verði úr vanda þess fólks sem átti allt undir þeirri starfsemi sem þar fór fram. Ég tel að það verði einnig að draga fram hina pólitísku ábyrgð í þessu máli.

Það er ekki rétt sem kom fram hjá hæstv. starfandi félagsmálaráðherra, viðskiptaráðherra Framsóknarflokksins og formanni flokksins, að staða málsins hafi verið öllum ljós. Það er einfaldlega ekki rétt. Í því bréfi sem vísað er til frá 5. september 2003 er ekki verið að draga fram veikleika Byrgisins, þar segir ekki frá því hver fjármálaóreiðan í rauninni var og var öllum ljós í félagsmálaráðuneytinu. Það er ekki dregið fram í því bréfi, heldur einungis hver þörf þessarar stofnunar var fyrir fjármagn. Menn eiga að halda því til haga sem rétt er en ekki að dreifa hér einhverjum hálfsannleik um það hver staðan var í ráðuneytinu.

Þetta mál vekur athygli á því hvernig fjárúthlutun til félagasamtaka er. Í þessu máli lá ljóst fyrir hver staða Byrgisins var, en með megninu af fjárveitingum sem veitt er til frjálsra félagasamtaka er engin eftirfylgni, það er ekkert eftirlit. Þetta mál er svo sannarlega mál sem læra þarf af.

Það sem ég ætlaði að vekja athygli á er að gerð hefur verið rannsókn á þessu þar sem spurt hefur verið út í afstöðu sérfræðinga og ráðuneyta til þess hvernig þessum málum er komið fyrir og niðurstaðan er einfaldlega sú (Forseti hringir.) að það fyrirkomulag sem við búum við þarf rækilegrar endurskoðunar við.