133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

málefni Byrgisins.

[11:31]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U):

Frú forseti. Eftir ofnotkun vímuefna verður fólk fyrir heilaskaða sem leiðir af sér skerta hæfni til sjálfsbjargar og til að vinna úr uppákomum í daglegu lífi og að taka réttar og raunhæfar ákvarðanir um sitt eigið líf. Fólk í slíku ástandi er af ríkisstjórninni sett til aðhlynningar, eða eigum við að segja til geymslu, hjá fólki sem hefur enga faglega þekkingu, enga faglega menntun til að annast fólk með heilaskaða. Byrgið er að margra áliti trúfélag og trúfélag sem lítur á atferli slíkra sjúklinga sem synd. Þetta er sjúkdómur, frú forseti.

Hvers vegna hefur félagsmálaráðherra ekki leitað til fagfólks til að þjónusta þessa hópa áfengis- og vímuefnaneytenda? Hvers vegna er ekki leitað til SÁÁ? Hvert á að leita næst? Á að leita til Samhjálpar? Er bókhald þeirra opið fyrir ríkisendurskoðanda? Er fagþekking þar til að annast þessa sjúklinga? Eru þjónustusamningar þar í gangi um fjárframlög frá ríkinu til að annast þessa sjúklinga? Hvers vegna er ekki leitað til SÁÁ í þessu máli? Hvers vegna er ekki notuð sú fagþekking og sú reynsla sem þar er til staðar? Hvers vegna er ekki leitað þangað, frú forseti? Hversu margir framsóknarráðherrar þurfa að koma að þessu máli áður en þeir axla ábyrgð og segja af sér?