133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

málefni Byrgisins.

[11:33]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við höfum ítrekað rætt í þessum sal um aga og aðhaldsleysi við framkvæmd fjárlaga. Það mál sem hér er til umfjöllunar er sýnidæmi um þann veruleika og kennslubókardæmi um vonda stjórnsýslu. Ég vona að Jón Sigurðsson staðfesti það sjónarmið og lýsi áliti sínu á því.

Byrgið veitti þjónustu fólki sem enginn annar vildi veita þjónustu. Það laut almenns velvilja og sá velvilji var kannski gagnrýnislaus eða lítill. Við getum öll lært af því, fjölmiðlar, stjórnmálamenn og embættismenn. Við öll sem komum að málinu berum ábyrgð en á framkvæmd fjárlaga ber félagsmálaráðherra ábyrgð. Félagsmálaráðherra urðu á alvarleg embættisafglöp fyrst og síðast haustið 2003, þegar hann tók um það ákvörðun að veita þessum aðila verulegt fé úr ríkissjóði þrátt fyrir það að hann í fyrsta lagi neitaði að undirrita samning við ráðuneytið. Í öðru lagi að embættismenn félagsmálaráðuneytisins höfðu verulegar efasemdir um starfsemina. Í þriðja lagi að fjármálaráðuneytið hafði gert athugasemdir um að fylgjast yrði vel með fjármálum þessa aðila. Í fjórða lagi að fyrir lá skýrsla úr utanríkisráðuneytinu um að fjármál þessara aðila væru í rúst og þrátt fyrir að þessi aðili væri í gjaldþrotaskiptum og flytja þyrfti fjárveitingu ársins yfir á ferska kennitölu.

Þrátt fyrir að öll þessi viðvörunarljós blikkuðu, ákvað félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins, Árni Magnússon, haustið 2003, að greiða skyldi út féð. Við hljótum að spyrja starfandi félagsmálaráðherra hvernig menn ætli sér (Forseti hringir.) að axla ábyrgð á þeim embættisafglöpum.