133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

málefni Byrgisins.

[11:36]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hv. fjárlaganefnd og félagsmálanefnd eru nú að fara yfir málefni Byrgisins og þeirri yfirferð nefndanna er ekki lokið og verður haldið áfram í næstu viku.

Eins og þingheimur veit kom sá sem hér stendur töluvert að málinu þegar hann vann í félagsmálaráðuneytinu. Svo ég geri grein fyrir því þá var skilið við málið á vormánuðum með þeim hætti að undirrituð var yfirlýsing á milli forsvarsmanna Byrgisins og ráðuneytisins þar sem sett voru ákveðin skilyrði fyrir því hvernig fjárveitingum yrði háttað í framtíðinni.

Ég hef hins vegar sagt að það séu margir sem beri ábyrgð í þessu máli og ég hef tekið hluta ábyrgðarinnar á mig. Ég hefði, eftir að ég settist í fjárlaganefnd, getað spurt einnar lítillar spurningar, hvort málin væru ekki í þeim farvegi sem ég taldi að þau væru í. Það hefði ég getað gert. En ég legg áherslu á að að sjálfsögðu treysti ég þeim aðilum sem fara með framkvæmd fjárlaga og eiga að hafa eftirlit með fjárlagagerðinni.

Hér er einfaldlega um röð mistaka að ræða og við skulum bara játa það. Ég tel mjög mikilvægt að fjárlaganefnd taki þetta mál föstum tökum, að við förum yfir það með þeim aðilum sem bera ábyrgð á framkvæmd og eftirliti fjárlaga hvað betur megi fara til að minnka líkurnar á því að svona lagað geti endurtekið sig í framtíðinni.

Ég vonast eftir góðu samstarfi við fjárlaganefnd í þeirri vinnu sem fram undan er. Það er mjög mikilvægt að við bætum vinnubrögð af þessu tagi. Hér er um peninga skattborgaranna að ræða og ábyrgðin er að sjálfsögðu okkar og við eigum að fara í þá vinnu að bæta verulega úr þeim annmörkum sem hér um ræðir.