133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

málefni Byrgisins.

[11:43]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram snýst þessi umræða um fólk og það er fólk sem er andlagið í þeirri starfsemi sem Byrgið átti að sinna. Í því ljósi eru afglöp hæstv. félagsmálaráðherra miklu alvarlegri vegna þess að það lá fyrir allan tímann að fjárhagur Byrgisins var í molum. Sett voru skilyrði um að því yrði kippt í liðinn áður en fjármunir rynnu úr ríkissjóði. Þeim skilyrðum var ekki fullnægt. Það stendur eftir í þessari umræðu að þrátt fyrir skilyrðin voru þessi afglöp framin í félagsmálaráðuneytinu af hæstv. félagsmálaráðherra. Þar liggur ábyrgðin.

Það hefur komið skýrt fram í umræðunni að félagsmálaráðherra ber ábyrgð á framkvæmd fjárlaga, eða hæstv. félagsmálaráðherrar því að hér er um að ræða tímabilið 2003–2007. Þeir hafa ekki staðið undir þeirri ábyrgð þennan tíma. Þetta liggur alveg ljóst fyrir í þessari umræðu. Spurningin er þá sú: Hvernig ætlar Framsóknarflokkurinn að axla þá ábyrgð því að hér er um að ræða milli 200 og 300 millj. sem hafa runnið úr ríkissjóði eftirlitslaust? Það eru dálítið dýr afglöp og ýmsir þurfa að bera mikla ábyrgð ef þeir fremja sambærileg afglöp.

Í lokin vil ég segja það, virðulegi forseti, að afglöpin eru ekki einungis fjárhagsleg, því að eftir að upplausnin varð í Byrginu misstu u.þ.b. 20 einstaklingar heimili sitt og fóru á götuna. Ekki var brugðist við því gagnvart þessum einstaklingum þegar upplausnin varð og reynt að leysa úr vanda þeirra. Þar er enn frekar ábyrgð hæstv. félagsmálaráðherra (Forseti hringir.) og því hlýtur spurningin sem beinist að formanni Framsóknarflokksins að vera sú: Hvernig ætlar Framsóknarflokkurinn að axla ábyrgð á þeim afglöpum?