133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[11:47]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Nú er að hefjast fimmti dagur af umræðum um Ríkisútvarpið. (Gripið fram í.) Í fimm daga eftir jól, rétt ábending. Á fimmta degi erum við að ræða enn og aftur frumvarp um Ríkisútvarpið. Mig langar með nokkrum orðum að fara yfir þessa umræðu, koma með nokkur efnisatriði sem mér finnst skipta máli varðandi þetta frumvarp, en ég vil benda á, frú forseti, að þann tíma sem umræðan hefur verið nú frá jólum hefur ekki staðið á talvélum stjórnarandstöðunnar að fara yfir málið. Þær hafa verið smurðar (Gripið fram í.) enda er það háttur og venja hér á þingi að það sé gefinn upp tími sem stjórnmálamenn tala í pontu. Ég heyri það á göngum þingsins að það er metingur milli stjórnarandstæðinga um hver hafi talað lengst og mest í málinu. Þannig meta þeir starfsvettvang sinn hér á Alþingi.

Það sem skiptir máli er að greina aðalatriðin frá því sem ekki skiptir máli. Mér finnst því miður, frú forseti, að menn hafi farið allt of mörgum orðum um þætti þessa máls sem varða nánast ekkert frumvarpið og þess vegna hefur verið um mikla tímaeyðslu að ræða.

Á miðvikudag var flutt mikil ræða sem stóð í tæpa sex tíma. Hv. þm. Valdimar Friðriksson hélt hana. Það sem mér finnst sérkennilegt og ánægjulegt er að í stuttu andsvari í gær kom hann öllu því að sem hann vildi koma að í sinni löngu ræðu. Honum dugði einnar mínútu andsvar. Það sem skemmtilegra var við þetta var að hann sagði það sjálfur í andsvarinu. Það var ekki meira sem hann þurfti að koma að. Hann náði því á einni mínútu. Það var um málefni starfsmanna.

Mig undrar nokkuð það sem einn hv. þingmaður Samfylkingarinnar hefur talað um, að stofnunin Ríkisútvarpið sé grundvallarstofnun samfélagsins. Ef ég skil þau orð rétt, grundvallarstofnun samfélagsins, þ.e. RÚV, er stórt og mikið sagt. Það er svona svipað og hv. Alþingi, hugsanlega háskólinn, sjúkrahúsin, Seðlabankinn. Mér finnst þess vegna undarlegt að menn sem líta á RÚV sem svo gríðarlega mikilvægt tæki í samfélagi okkar skuli þá ekki koma með skýrari og betri tillögur og hv. Samfylking skuli ekki koma með skýrari tillögur um hvernig hún vill hafa RÚV og fjölmiðlun almennt í landinu. Ég undra mig nokkuð, frú forseti, á að ekki skuli hafa komið fram í umræðu um frumvarpið að ríkið ætti t.d. að fara að gefa út dagblað. Það væri afar eðlilegt miðað við þennan grundvallarþátt í ríkinu að Ríkisútvarpið gæfi bara út dagblað. Það hefur ekki heyrst. (MÁ: Viltu leggja þetta niður? Viltu selja það?) Það koma frammíköll frá hv. þm. Merði Árnasyni og hann spyr hvort við viljum selja Ríkisútvarpið. (MÁ: Nei, RÚV.) Ég ætla að koma að því síðar í ræðu minni, einmitt um framtíð ríkisútvarps, ég held að það sé mjög gagnlegt að fara jafnframt aðeins yfir það.

Í 1. gr. þessa frumvarps sem er stutt og sakleysisleg en hefur farið afskaplega í taugarnar á vinstri grænum er sagt um eignarhald RÚV að það sé ohf. Því er komið í þann búning, nútímarekstrarform, búning sem hentar þessari stofnun til frambúðar. Það er verið að gera þessa stofnun og stjórnunarstrúktúr hennar þannig að hann sé straumlínulagaðri og eigi auðveldara með að bregðast við nýjum aðstæðum rétt eins og allt viðskiptalíf í þessu landi. Það þarf að hafa tækifæri til að bregðast við slíkum hlutum. Það er það sem er verið að gera með því að koma þessu í þann farveg sem hér er gert í 1. gr. laganna. Það er skýrt af hálfu stjórnarflokkanna í 1. gr. að ekki stendur til að selja RÚV og þá er það svar komið gagnvart meiri hluta stjórnarflokkanna að það er ætlanin að selja ekki útvarpið. (ÖJ: En ef það fæst gott verð?) (Gripið fram í.) (MÁ: En RÚV?) Ég ætla að koma að því eins og ég sagði áðan hver verður framtíð RÚV og hvernig við horfum á hana (Gripið fram í.) og við skulum fara yfir það á eftir þegar að þeim kafla kemur. En ég sé að þeir hlusta með athygli, hv. þm. Ögmundur Jónasson og Mörður Árnason.

Framtíð RÚV inn í hinn langa tíma, 10–20 ár, við skulum bara sjá hvernig mál þróast og skipast eftir að þessi lög hafa náð fram að ganga, hver þá verður afstaða meiri hluta Alþingis. Það verður að koma í ljós. Það kann vel að vera að svokallaðir sölumenn RÚV sem hafa talað hér og talað og talvélar stjórnarandstöðunnar tali þannig fyrir RÚV að það væri skynsamlegast að selja það, það kann vel að vera. Við skulum bara skoða það þegar þar að kemur. Það er alveg óhætt að segja um þessa fyrirhuguðu lagasetningu hér að auðvitað er margt efnislega í henni sem þarf að fara yfir og huga að. Það er það sem ég vil einmitt fá að ræða við hv. þingmenn.

Við erum nefnilega með ríkisstofnun sem er að fara í samkeppni og er í samkeppni og hefur verið í samkeppni við einkamarkaðinn. Þessi ríkisstofnun mun fá nefskatt sem við þekkjum í samkeppni við hin frjálsu fjölmiðlafyrirtæki sem einungis byggja tekjur sínar á afnotagjöldum og auglýsinga- og kostunartekjum. Það kunna að koma einhverjir nýir tekjupóstar á þessum markaði en það er flókið mál að koma þannig stofnun, fyrirtæki sem er búið að setja í ohf., svo fyrir að það megi fara vel fram í þeirri samkeppni sem við viljum hafa. Við viljum hafa samkeppni á þessum markaði og við þurfum að sjá inn í framtíðina hvernig við viljum koma þeirri samkeppni best fyrir. Það er ekkert endilega sjálfgefið að það sé best gert með því að ríkið reki slíka stofnun, ekkert endilega. Þess vegna verður tíminn svolítið að leiða í ljós hvað best er í því efni.

Álit Samkeppniseftirlitsins hefur komið fram varðandi þau atriði sem ég hef nefnt hér, tekjuþáttinn og við höfum heyrt svokölluð ESA-mál. Og það er ljóst af þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað að ESA hefur ekki sagt sitt síðasta orð. Það hefur margsinnis verið upplýst í menntamálanefnd að þegar lögin um Ríkisútvarpið ohf. hafa verið samþykkt mun stofnun ESA fara yfir málið. Það kann vel að vera, eins og í margri lagasetningu á hv. Alþingi, sérstaklega þegar við förum að vinna með þessi lög, að það þurfi að taka tillit til einhverra þátta er varða samkeppnisliðinn. Við samþykktum fyrir nokkrum árum lög um raforkumálin og við þekkjum það að þau fengu góða umfjöllun í þinginu. Mönnum sýndist sitt hvað um þann lagabálk. Við höfum nokkrum sinnum, einmitt vegna samkeppnisþáttanna, þurft að breyta þeim lögum, ekki mikið en við höfum þurft að gera það og menn hafa gengið til þess verks að breyta þeim lögum með tilliti til reynslu og aðstæðna sem hafa skapast. Ég held að það sé alls ekki óeðlilegt að við horfum á sama hátt til þessarar lagasetningar. Mér kemur ekki til hugar sjálfum að segja að ekki þurfi að fylgja eftir þessari lagasetningu, hafa eftirlit með því hvernig til tekst, hvernig markaðurinn þróast og þá skulum við vera tilbúin að taka þennan lagabálk upp og leiðrétta eftir því sem samfélag okkar óskar eftir að haldið verði um þennan málaflokk. (Gripið fram í: Nú?) Það er einmitt framtíðin sem við þurfum að reyna að átta okkur á og það er varðandi 1. gr. frumvarpsins, þ.e. hvernig stjórnskipunin verður með útvarpið. Þess vegna held ég að 1. gr. sé akkúrat í þeim farvegi sem við viljum sjá.

Sá þáttur sem mér finnst að stjórnarandstaðan hefði átt að gefa meiri gaum hér er 3. gr. frumvarpsins, um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins í almannaþágu og það er sá samningur sem þar er gert ráð fyrir að verði gerður milli menntamálaráðherra og Ríkisútvarpsins ohf. sem er þjónustusamningur um þau mál sem varðar almannaþjónustuna. Ég legg gríðarmikla áherslu á að þarna er tekið á þeim þætti sem er ríkisstyrkurinn sem stofnunin á að fá sem nefskatt og þarna á að greina á milli almannaþjónustunnar og samkeppnisþjónustu sem stofnunin mun veita. Ég legg mikla áherslu á það að Ríkisendurskoðun á samkvæmt 5. lið 9. gr. laganna að vera sá aðili sem gerir árlega úttekt á þessum samningi og þar er einmitt sá þáttur sem við þurfum að fylgjast hvað best með. Við gætum þurft að endurskoða þann þátt.

Það hefur komið fram í umsögnum aðila sem hafa komið að þessu máli og til menntamálanefndar um þann hátt sem Kvikmyndasjóði hefur verið búinn um að aðilar geti haft aðgang að sjóði sem sæi um almannatengslin og þann menningarþátt sem Ríkisútvarpinu er ætlaður að það kunni vel að vera að við ættum að huga meira að þeirri aðferð sem þar hefur verið notuð. Ég hef samt ekki heyrt í umræðunni að menn hafi farið inn á þann þátt og tekið þá umræðu í sjálfu sér. Ég sakna þess svolítið.

Mér finnst, frú forseti, sérstaklega hjá þingmönnum Samfylkingarinnar, að því lengra sem líður á umræðuna komi greinilegar í ljós meiri skoðanamunur innan hvers þingflokks en var í upphafi umræðunnar þar sem kemur fram að sumum finnst að verið sé að búa Ríkisútvarpinu þannig kjör og aðstæður að stofnunin muni kafkeyra hina frjálsu fjölmiðla. Í öðrum ræðum, eins og hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, kemur fram að það vanti tekjur í frumvarpið fyrir Ríkisútvarpið þannig að það geti betur gegnt skyldum sínum. Þarna stangast á því að síðan hafa komið hér upplýsingar um þingmenn Samfylkingarinnar sem vilja gjarnan sjá að Ríkisútvarpið verði rekið í ohf.-forminu þannig að þær skoðanir sem hafa komið hér fram hjá hv. stjórnarandstæðingum eru gríðarlega mismunandi.

Í lokin, frú forseti, vil ég gjarnan sjá að þessari umræðu verði lokið með því að hv. þingmenn beini umræðunni meira að efnisatriðunum sem eru vissulega átakapunktar varðandi RÚV og rekstur þess. Það er nefnilega jafnvægislistin milli þess að við erum með ríkisstofnun sem fær nefskatt og þess að við erum með fyrirtæki í samkeppni á þessum markaði.