133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[12:02]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U) (andsvar):

Frú forseti. Loksins kom að því að við fengjum að hlýða á ræðu hv. þm. Kjartans Ólafssonar, sem er nefndarmaður í menntamálanefnd. Það hefur verið athygli vert hér síðustu daga að alltaf þegar maður hefur verið að gera sig kláran til að hlusta á hans ræðu þá hefur KÓ fallið niður ræðulistann. Hvers vegna veit ég ekki. En það er aukaatriði.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Kjartan Ólafsson: Telur hv. þingmaður að réttindi og kjör opinberra starfsmanna séu ekki skert verði frumvarpið samþykkt óbreytt?

Síðan er hitt atriðið sem kom í ljós í gærkvöldi og ég ræddi hér inn í nóttina á þeim ræðutíma sem mér var úthlutaður. (Gripið fram í.) Er það vísvitandi gert hjá hv. menntamálanefnd og þar af leiðandi hjá hv. þm. Kjartani Ólafssyni að undanþiggja þá Íslendinga sem einungis greiða fjármagnstekjuskatt? (Gripið fram í.) Við erum væntanlega að tala um yfir 2.000 einstaklinga því að samkvæmt 1. mgr. í 11. gr. frumvarpsins — og er það skilningur okkar — eru þeir undanþegnir nefskatti sem ekki greiða beinan tekjuskatt heldur einungis fjármagnstekjuskatt. Er þetta virkilega vísvitandi gert af hv. þingmanni að styðja þetta? Ef ekki, hyggst hann þá kalla frumvarpið aftur í nefnd til að leiðrétta þennan galla?