133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[12:14]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta er bara eins og ég sagði. Það staðfestist að við Kjartan erum sammála um að málum Ríkisútvarpsins gagnvart ESA, gagnvart Evrópureglum sé ekki lokið, að það sé óljóst hvernig frumvarpinu reiðir af þegar það er orðið að lögum eða ef það verður að lögum.

Nú vil ég tengja þetta tvennt saman sem hv. þm. Kjartan Ólafsson sagði hér, annars vegar það að hann hefur gengið í sölunefndina, er orðinn fjórði maður í sölunefndinni, og hins vegar það að hann telur, að það sé hætta á því, að það kunni vel að vera að ESA krukki í frumvarpið eða lögin og það geti leitt til þess að hér þurfi að breyta lögunum aftur.

Mig grunar að þetta hangi saman í hugum ýmissa stjórnarþingmanna, að þeir ætlist til þess, sölunefndarmenn í Sjálfstæðisflokknum, þeir hv. þingmenn Birgir Ármannsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Pétur Blöndal og Kjartan Ólafsson (Gripið fram í: Og kannski fleiri.) og kannski fleiri í hjarta sínu, að þeir telji að þetta mál muni ganga þannig að það fari fyrir ESA, Evrópureglur, það lendi í málaferlum og kærum og að því loknu verði Ríkisútvarpið orðið lömuð stofnun, rúin trausti og rúin grundvelli og þá myndist þessi meiri hluti glaðra sölunefndarmanna hér á þinginu sem að lokum geti lagt Ríkisútvarpið niður og selt reyturnar. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) (Gripið fram í: Þetta er plottið.)