133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[12:18]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson kemur hér að mörgum efnisatriðum og ég ætla að reyna að fara yfir þau. Ég tel að ég hafi svarað ESA-málinu í andsvari við hv. þm. Mörð Árnason þannig að það sé ekki frágengið og það hefur verið margupplýst, bæði af menntamálaráðherra héðan úr þessum ræðustól og í menntamálanefnd, að ESA hefur alltaf möguleika og er til þess að skoða lagasetninguna þegar hún hefur átt sér stað.

Hv. þingmaður talar um að fjárhag stofnunarinnar hafi verið of þröngt skorinn stakkur og hann skroppið saman. Þá verða menn auðvitað að hafa umsvifin í takt við það. Það er það sem við þurfum m.a. að ræða. Ég mundi gjarnan vilja eiga orðastað við hv. stjórnarandstöðu og þá þingmenn sem tala á móti frumvarpinu um hvernig nákvæmlega við viljum hafa Ríkisútvarpið. Hvað á umfangið að vera mikið og hvaða staði í samfélaginu á það að koma inn á? Það er nákvæmlega það sem 3. gr. frumvarpsins er ætlað. Ég vildi gjarnan hafa meiri tíma til að ræða það mál við hv. þingmann.

Svo er þessi almannaþjónusta sem við viljum koma að, menningin og almannaþjónustan. Hv. þingmaður spyr hvort og hvað þurfi að bjóða mikið í fyrirtækið RÚV til að það sé eðlilegt að það yrði selt því að ég hafði nefnt það í ræðu minni að það væri ekki alveg útilokað. Aðalatriðið er að við viljum tryggja almannaþjónustuna og menninguna. Við viljum hafa samkeppni. Við viljum ekki hafa einokun ríkisins á þessum markaði. Við viljum heldur ekki hafa einokun einkaaðila á þessum markaði.

Það er höfuðatriðið, að það sé samkeppni og að við tryggjum þá þjónustu sem við viljum. Ég hygg að við séum að mörgu leyti sammála um það, við hv. þm. Ögmundur Jónasson.