133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[12:21]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú hefur verið haft ítrekað á orði af hálfu hæstv. menntamálaráðherra og fulltrúa stjórnar meiri hlutans hér á þingi að til standi að bæta stöðu Ríkisútvarpsins. Það hefur þó allt verið harla óljóst á hvern hátt það skuli gert en í tíð núverandi ríkisstjórnar og ríkisstjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefur verið hert að Ríkisútvarpinu. Fjárhagurinn hefur skroppið saman. Ríkisútvarpið hefur brugðist við með því að draga saman í mannahaldi um 15% á 10 ára tímabili.

Það er ekki gert ráð fyrir að bæta stöðu Ríkisútvarpsins á nokkurn hátt fjárhagslega með þessu frumvarpi og vísað í óljósa framtíð og reyndar var Ríkisútvarpinu meinað að hækka afnotagjöldin í samræmi við óskir síðasta haust.

En ég vildi fá að vita frá hv. þingmanni, ef það berst gott kauptilboð í Ríkisútvarpið núna (Forseti hringir.) telur hv. þingmaður æskilegt að verða við því og hvað finnst honum um (Forseti hringir.) hugsanlegan samruna við önnur fyrirtæki eins og Morgunblaðið og Skjá einn?