133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[12:23]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Umræðan um Ríkisútvarpið er orðin býsna löng. Þetta er þriðja tilraunin til að koma fram breytingum á Ríkisútvarpinu. Fyrst átti það að verða sf., næst hf. og síðan ohf. Ég verð að játa að ég hef ekki tekið þátt í neinni af þessum þremur hrinum fyrr en nú. Ég sé ástæðu til að gera það vegna þess að mér finnst að fram hafi komið í umræðunni ýmsir hlutir sem ástæða væri til að setja spurningarmerki við. Það mætti meira að segja velta fyrir sér hvort ekki væri betur við hæfi að nota annað heiti fyrir þetta fyrirbrigði sem Ríkisútvarpið á að vera, þ.e. nokkuð sem mjög er í gildi núna og dálítið í tísku, þ.e. group.

Ríkisútvarpið Group gæti alveg eins átt við fyrirkomulagið sem hér er sett fram. Mér dettur það í hug vegna þess að í 3. gr. þessa frumvarps er farið yfir hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins undir yfirskriftinni Útvarpsþjónusta í almannaþágu. Mig langar til að fara yfir þá grein með það í huga að skoða hvort sú skilgreining sem þar er geti ekki allt eins átt við aðra á markaðnum, önnur fjölmiðlafyrirtæki í samkeppni við Ríkisútvarpið.

Það liggur fyrir að samkeppnisaðilarnir munu horfa til Ríkisútvarpsins og þeirrar samkeppnisstöðu sem þeir verða í gagnvart því. Þeir munu örugglega bera fram kærur ef þeir telja á sér sé brotið. Með því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi er Ríkisútvarpið sett í þá deild fyrirtækja á þessum markaði. Menn munu auðvitað gera kröfu um að samkeppnin verði eðlileg og sanngjörn gagnvart öðrum aðilum.

Ef við skoðum 3. gr. frumvarpsins, lýsingu á aðalhlutverki Ríkisútvarpsins, þá stendur þar, með leyfi forseta:

„Hlutverk Ríkisútvarpsins ohf. er rekstur hvers konar útvarpsþjónustu í almannaþágu, svo sem hljóðvarps og sjónvarps, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum þessum.“ Orðavalið „í almannaþágu“ skýrist síðan í greininni. Þar segir:

„Útvarpsþjónusta í almannaþágu felur í sér eftirfarandi:

1. Að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.“ — Ég geri ráð fyrir því að önnur fyrirtæki á þessum markaði vilji gera slíkt hið sama.

„2. Að senda út til alls landsins og næstu miða a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá árið um kring. Enn fremur að birta valda hluta efnis síns, breytta eða óbreytta, ásamt öðru þjónustuefni í breyttu eða óbreyttu formi með öðrum miðlum, þar með talið að gera efni aðgengilegt almenningi með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að verkinu á þeim stað og á þeirri stundu er hann sjálfur kýs.“ — Þetta ætla líka örugglega allir á þessum samkeppnismarkaði að gera.

„3. Að framleiða og dreifa hvers konar útvarpsefni fyrir sjónvarp og hljóðvarp á sviði fréttamiðlunar, fræðslu, lista og afþreyingar. Efnið skal fullnægja eðlilegum kröfum almennings um gæði og fjölbreytni.“ — Allar stöðvar á þessum markaði hljóta að skrifa undir að þær leitist við að gera þetta.

„4. Að veita almenna fræðslu og gera dagskrárþætti er snerta málefni lands og þjóðar sérstaklega og með þeim hætti tryggja hlutlæga upplýsingagjöf um íslenskt samfélag.“ — Ég geri ráð fyrir því að Ríkisútvarpið vilji og muni hafa metnað til þess að ganga langt í þessu en aðrar stöðvar á markaðnum gera þetta líka þótt þær hafi kannski ekki burði til þess með sama hætti og Ríkisútvarpið.

„5. Að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Gæta skal fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.“ — Þetta eru bara eðlilegar kröfur sem allar sjónvarpsstöðvar og útvarpsstöðvar gera til sín.

„6. Að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri. Sérstaklega skal þess gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi sem sjónvarpi.“ — Ég hef tekið eftir því að aðrar sjónvarpsstöðvar, t.d. Stöð 2, hafa einmitt staðið sig mjög vel í því sem hér var nefnt og hafa metnað til þess.

„7. Að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.“ — Við sjáum að Stöð 2 vinnur að þessu líkt og sjónvarpið og aðrir fréttamiðlar og sjónvarpsstöðvar reyna að gera slíkt hið sama.

„8. Að flytja efni á sviði lista, vísinda, sögu, íþrótta og annars tómstundastarfs.“ — Þarna getur Ríkisútvarpið talið sig eiga að ganga lengra en almennar stöðvar en þær hafa sýnt viðleitni til þess að gera þetta líka og munu væntanlega gera svo áfram.

„9. Að miða útvarpsefni við fjölbreytni íslensks þjóðlífs, þar á meðal að sinna eðlilegum þörfum minnihlutahópa.“ — Hið á sama við um þennan 9. lið, allir munu reyna að gera slíkt hið sama.

„10. Að koma upp aðstöðu til dagskrárgerðar og útvarps utan höfuðborgarsvæðisins.“ — Þarna hefur Ríkisútvarpið kannski víðtækara hlutverk og skyldur og í þessu efni hægt að gera kröfu til þess að Ríkisútvarpið gangi lengra en aðrir. Það hefur kannski ekki lánast algjörlega sem skyldi. Aðrar stöðvar gera það sem þær geta í þessu en þarna yrði kannski töluverð sérstaða.

„11. Að halda uppi nauðsynlegri öryggisþjónustu á sviði útvarps.“ — Ég hef tekið eftir því að Stöð 2 hefur sérstaklega lagt sig eftir því að standa sig í samkeppninni við Ríkisútvarpið hvað upplýsingar varðar þegar á reynir í náttúruhamförum eða slíkum tilvikum.

„12. Að eiga eða leigja, sem og að reka, hvers konar búnað og eignir, þar á meðal tæknibúnað og fasteignir sem nauðsynlegar eru fyrir starfsemi félagsins.“ — Þetta á auðvitað við um allar stöðvar.

„13. Að varðveita til frambúðar frumflutt efni, enda sé gengið frá samningum við aðra rétthafa efnis um að slíkt sé heimilt.“ — Þetta gerist auðvitað á öllum stöðvum.

Því fer ég yfir þessa liði að mér sýnist það sem hér er sett undir almannaþjónustu eða útvarpsþjónustu í almannaþágu eins og það heitir sé svo víðtækt og eigi með sama hætti við um samkeppnisaðilana á markaðnum að jafnist á við ávísun á að samkeppnisaðilar Ríkisútvarpsins muni gera kröfur um sanngirni, að þeir fái sömu tækifæri á markaðnum.

Satt að segja er erfitt að átta sig á því hvað á ekki við undir 3. grein í öllum hugsanlegum rekstri þessarar stofnunar. Það væru kannski hlutir eins og þeir sem hér hafa verið nefndir í umræðunni, þ.e. vídeóleigur eða hringitónar. Spurningin um það sem er hér ekki hlýtur því að vakna í umræðunni.

Í 4. gr. heldur þetta síðan áfram og þar er sagt að Ríkisútvarpinu ohf. sé heimilt að standa að annarri starfsemi, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpinu ohf. er heimilt að standa að annarri starfsemi en kveðið er á um í 3. gr. sem tengist starfsemi félagsins á sviði dagskrárgerðar eða til nýtingar á tæknibúnaði þess, sérþekkingu starfsmanna þess og aðstöðu þess að öðru leyti.

Ríkisútvarpinu ohf. er heimilt að taka saman, gefa út og dreifa hvers konar efni, án endurgjalds eða gegn endurgjaldi …“

Mér sýnist umfang þeirrar starfsemi sem skilgreind er undir útvarpsþjónustu í almannaþágu og viðbótarheimildum Ríkisútvarpsins veita því stöðu sem gengur jafnvel lengra en aðrir hafa á markaðnum. Í 2. gr. frumvarpsins segir, hæstv. forseti:

„Ríkisútvarpið ohf. hefur leyfi til útvarps á þeim rásum og tíðnisviðum sem það fær til umráða eða því kann síðar að verða úthlutað.“

Ríkisútvarpið getur, miðað við textann, tekið upp nýjar rásir, hafið útsendingu á þeim og aukið starfsemi sína, allt eftir því hve mikið það fær úthlutað til umráða í rásum.

Ég tel þetta ekki upp vegna þess að ég sé á móti því að Ríkisútvarpið geti verið öflugt á þeim markaði sem um ræðir. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að við verðum að gæta að samkeppnisaðilum þess á markaði. Umfangið sem skilgreint er fyrir Ríkisútvarpið er svo víðtækt og því er svo lýst í 3. gr. og öðrum greinum sem tengjast henni að þeir sem eru í samkeppni við Ríkisútvarpið munu örugglega gera harðar kröfur um að hægt verði að halda því fram að hér sé sanngjörn samkeppni á ferðinni enda sé haft í huga að takmarkanirnar sem settar eru við starfsemi á vegum Ríkisútvarpsins eru mjög litlar.

Það segir í 1. gr., hæstv. forseti:

„Ríkisútvarpinu ohf. er óheimilt að eiga hlut í öðru fyrirtæki sem gefur út dagblað eða rekur útvarpsstöð.“

Þarna er tekið fram að einungis tvennt sé Ríkisútvarpinu bannað, þ.e. að gefa út dagblað eða reka aðra útvarpsstöð, enda engin þörf á því. Ríkisútvarpið má færa út starfsemi sína eins og það hefur getu og möguleika til. Auk þess má þetta ríkisfyrirtæki eiga og reka nánast hvaða starfsemi sem er.

Ég tel að það geti valdið stofnuninni skaða. Flest okkar á hv. Alþingi viljum að Ríkisútvarpið verði sterkt og öflugt til framtíðar. Ég tel að það geti valdið stofnuninni skaða, jafnvel þeim að menn standi frammi fyrir því að þurfa annaðhvort að gera miklar breytingar á rammanum um reksturinn eða að þeir sem vilja að ríkisvaldið hverfi af þessum markaði fái vilja sínum framgengt með því að Ríkisútvarpið verði selt eins og hvert annað fyrirtæki og verði rekið sem slíkt. Þar er að mínu mati gríðarleg hætta á ferðum varðandi framtíð Ríkisútvarpsins.

Ríkisútvarpið hefur að sumu leyti verið að draga saman seglin á undanförnum árum. Mannahald þar hefur dregist saman um 15% á 10–15 árum. Það gefur tilefni til að álykta að starfsemin hafi í raun dregist nokkuð saman. Ég lít þannig á að lagaramminn sem hér er til umræðu hljóti að verða ákveðin ögrun fyrir stjórnendur fyrirtækisins, þ.e. þá sem stjórna Ríkisútvarpinu ohf. í framtíðinni, verði það framtíð Ríkisútvarpsins. Þeir munu neyta þeirra ráða sem gefast undir þessum lagaramma til að reka sem allra öflugast ríkisútvarp. Kannski eru ákveðnar líkur á því að nefskatturinn, sem ég ætla að ræða betur á eftir, gefi ekki svigrúm til svo umfangsmikils rekstrar sem menn helst vildu hafa á þeim bæ. Þá munu menn grípa til þess að nota möguleika Ríkisútvarpsins að ná sér í tekjur af annarri starfsemi. Fyrirtæki eins og Ríkisútvarpið á býsna góða möguleika á því. Bakhjarlinn í sjálfri stofnuninni eða fyrirtækinu er gríðarlega mikilvægur og sterkur. Það er þess vegna ástæða til þess að gera ráð fyrir því að stjórnendur Ríkisútvarpsins muni nota möguleika sína til alls þess rekstrar sem gefur stofnuninni tekjur. Það er ekkert sem bannar það að Ríkisútvarpið standi í rekstri utan við þá starfsemi sem talin er upp í 3. gr., t.d. með því að eiga einhver fyrirtæki eða hluti í einhverjum fyrirtækjum. Þau gætu síðan tekið út úr þeim rekstri fjármuni til þess að bera uppi kostnaðinn af því sem fellur undir 3. gr. frumvarpsins.

Ég held því fram að samkeppnisaðilarnir á markaðnum geti með góðum rökum haldið því fram, sem ég geri skóna að hugsanlega gerist, að Ríkisútvarpið efli starfsemi sína með þeim möguleikum sem hér eru gefnir í lagarammanum, að þessi lög um Ríkisútvarpið gefi mikið forskot til samkeppni á almennum útvarps- og sjónvarpsmarkaði. Þar með stæðu menn frammi fyrir því að kærur vegna þeirra laga sem þá mundu gilda birtist mjög bráðlega. Stjórnvöld á Íslandi gætu staðið frammi fyrir athugasemdum og kröfum frá ESA um breytingar á þessu umhverfi.

Ég tel að hér hafi menn ekki skoðað sig um eins og skyldi. Mér finnst að greinarnar skipta öllu máli um grunn starfseminnar á vegum þessa Ríkisútvarps bendi eindregið til þess að samkeppnisaðilarnir muni eiga erfitt á markaðnum. Það kallar á þetta sem ég hef verið að halda hér fram.

Síðan kemur að fjármögnuninni á Ríkisútvarpinu samkvæmt því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Mig langar að ræða aðeins um hana, sérstaklega um nefskattinn sem er ekki nefskattur á öll nef. Það liggur fyrir að menn eru undanþegnir skattinum ef þeir eru orðnir sjötugir og eldri og síðan er gert ráð fyrir að börn innan 16 ára aldurs greiði ekki. Það er út af fyrir sig gott og enginn hefur út á það sett, enda eru svipaðar reglur í gildi um greiðslur í Framkvæmdasjóð aldraðra.

Það hefur komið skýrt fram við umræðuna að þeir sem hafa einungis fjármagnstekjur, sem eru um tvö þúsund manns í landinu og sumir hverjir með gríðarlega miklar tekjur og borga útvarpsgjald, þurfa ekki að borga nefskattinn. Það er merkilegt. Það er merkilegt að þeir aðilar sem geta látið peningana vinna fyrir eigi að sleppa við útvarpsgjaldið, (Gripið fram í.) lækka eigi skattinn á þeim. Nei, þeir sem einungis hafa fjármagnstekjur virðast hafa hlotið einhverja sérstaka náð fyrir augum þeirra sem settu þessar hugmyndir á blað, að þeir sleppi við að borga.

Ég er að vísu á þeirri skoðun að þeir sem hafa einungis fjármagnstekjur og hafa af fjármagnstekjum það miklar tekjur að þokkalegt þykir, að breyta eigi lögum og gera þeim að reikna sér atvinnutekjur eins og öðrum sem reka starfsemi því að það að láta peningana vinna fyrir sig er alveg jafnmerkileg starfsemi eins og að prjóna sokka, en konan sem prjónar sokka þarf að borga skatt og karlar líka sem kunna þá list, sem fáir eru reyndar. (Gripið fram í.) Það mætti því fara þá leið að breyta öðrum lögum til þess að sanngirni geti komið til greina.

Nefskatturinn er mjög ósanngjarn. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega yfir það en vísa mest til ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um það efni frá því í gær þar sem hún fór mjög vel yfir þetta og sýndi fram á það með góðum rökum hversu illa þetta getur komið niður á fjölskyldum og ósanngjarnlega. Ég tel að slíkur nefskattur ætti eiginlega ekki að vera til neinnar umræðu og ég velti því oft fyrir mér: Hvers vegna í ósköpunum þurfa menn að búa til nýjar skattaleiðir? Af hverju er ekki hægt að halda sig við aðalskattana sem eru lagðir á og reyna að finna sanngjarnt jafnvægi hvernig þeim er komið fyrir og hafa þá þá í heildina það háa að hægt sé að borga það sem meiningin er að borga með sköttum? Rökstuðningur fyrir því að það eigi að hafa sérstakan skatt vegna þess að Alþingi ákveður að hér skuli vera Ríkisútvarp og leggja skuli því til fé er ekki góður. Hvers vegna á að vera sérstakur skattur fyrir starfsemina? Ég sé ekki að ástæða sé til þess og tel að úr almenna skattkerfinu megi alveg eins taka fjármuni í þetta eins og annan rekstur á vegum ríkisins. Þar með væri ekki verið að búa til enn einn skattinn.

Mig langar til þess að vitna til ágætisrökstuðnings að mörgu leyti í frumvarpi sem hér hefur líka legið fyrir um Ríkisútvarpið, þ.e. breytingu á útvarpslögum, lögum um tekjuskatt, eignarskatt og brottfall laga um Ríkisútvarpið sem tveir hv. þingmenn fluttu á 132. þingi, hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Birgir Ármannsson. Áður mun hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hafa flutt málið með þeim en af einhverjum ástæðum hefur hann kosið að vera ekki á frumvarpinu núna.

Í rökstuðningnum gegn því að nota þessa skattlagningaraðferð segir í greinargerð með frumvarpinu:

,,Gallar á þessari skattlagningarhugmynd eru eftirfarandi:

1. Hún flækir skattkerfið og lagasafnið.

a. Í lög um Ríkisútvarpið sf., sem ekki eru skattalög, er sett sérstakt skattaákvæði eins og því miður er víða í lögum. Þeim sem ætlar að kynna sér skattkerfið sést yfir þennan skatt.“

Þetta er auðvitað galli, það er hægt að taka undir það.

„b. Gjaldið er sérstakur skattur með sér innheimtu.“

Það er líka galli, það kostar peninga að innheimta féskatt.

„c. Skattskylda er samkvæmt skattalögum með tengingu við gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra sem kemur fram í lögum um málefni aldraðra! Ekki er það beint augljós lagasetning um gjald til Ríkisútvarpsins sf.“

Það má líka taka undir þetta.

„d. Skatturinn krefst sér línu í álagningu skattstjóra. Allir skattþegnar spyrja sig: Hvaða skattur er nú þetta? Upphæðin er mjög lítil eða 13.500 kr. á ári.“

Það er víst búið að breyta þeirri upphæð, hún er aðeins hærri.

Svo stendur hér líka, með leyfi forseta:

„e. Gert er ráð fyrir að skattskyld fyrirtæki greiði gjaldið. Hér er um alveg nýja skattlagningu að ræða og ekki er hægt að tengja hana við gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Þetta þýðir ný verkefni fyrir skattstofur landsins við að hanna nýtt kerfi og annast nýja framkvæmd.“

Það er auðvitað galli.

Hér stendur líka:

„2. Skattheimtan er ósanngjörn. Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra“ — upphæðin er tilgreind — „er ekki lagt á þá sem eru yngri en 16 ára, eldri en 70 ára eða voru með tekjur undir skattleysismörkum. … Útvarpsgjaldið, 13.500 kr., leggst með sama hætti á sama hóp. Við slíka skattheimtu er ýmislegt að athuga:

a. Skiljanlegt er að þeir sem eru 70 ára eða eldri greiði ekki gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra þar sem gjaldinu er ætlað að bæta stöðu aldraðra, þeirra sjálfra, þó að ekki sé réttlátt að leggja fast gjald á t.d. þá sem eru vinnandi og hafa tekjur sem eru rétt yfir skattleysismörkum og hafa jafnvel fyrir börnum að sjá en ekki á aldraða sem hafa mjög miklar tekjur (t.d. fjármagnstekjur eða sérstakar lífeyristekjur) og eiga miklar eignir.“

Það er athyglisvert að hv. þingmenn komi einmitt að þessu með fjármagnstekjurnar og eignirnar.

„Er það spurning um jafnræði.“ — Það má vissulega taka undir það. — „Reyndar er gjaldið það lágt (500 kr. á mánuði) að það kollvarpar varla fjárhag nokkurs manns en samt hlýtur að muna um það hjá þeim sem lægstar hafa tekjurnar.“

Þá segir:

„b. Engin rök eru til þess né réttlætanlegt að sleppa þeim sem er eldri en 70 ára en með háar tekjur við að greiða gjald til Ríkisútvarpsins sf. á meðan lágtekjufólk með tekjur rétt yfir skattleysismörkum greiðir bæði gjöldin. ... Eldra fólk notar útvarp ekki síður en yngra fólk. Þó að bæði gjöldin séu miklu lægri en núverandi útvarpsgjald fyrir einstakling hlýtur það samt að vera þungbært þeim sem þurfa að lifa á mjög lágum atvinnutekjum.

c. Gert er ráð fyrir að fyrirtæki greiði þennan sérstaka skatt. Hætt er við að eitthvað heyrist í litlum fyrirtækjum með einfaldan rekstur og ekkert útvarp þegar þau eiga að fara að greiða þennan skatt. Sum þessara fyrirtækja hafa litlar tekjur og lítinn hagnað eða jafnvel tap. Þau eru ekki í stakk búin til að greiða viðbótarálögur.

Því má enn fremur halda fram að fyrirtæki sem slík hlusti ekki á útvarp eða horfi á sjónvarp. Starfsmenn þeirra og viðskiptamenn njóta útvarpsins og þeir eru búnir að greiða gjaldið með lækkun persónuafsláttar ...“ — Það er reyndar önnur saga sem vísar til þeirrar tillögu sem þessir aðilar hafa lagt fram um það hvernig eigi að þeirra mati að fjármagna Ríkisútvarpið.

Mér finnst greinargerðin glögg og að mörgu leyti mjög góð um nefskattinn sem verið er að leggja til að verði settur á. Hann er ósanngjarn og óþarfur. Ríkisvaldið hefur skattlagningarvaldið í sínum höndum og það er eðlilegast að menn finni það út með sem vönduðustum hætti hvernig skattar eru lagðir á. Þess vegna er best að þeir fjármunir sem ríkið ætlar að setja í starfsemi eins og þessa séu teknir af almennum sköttum sem hafa verið hugsaðir rækilega og sanngjarnlega til álagningar á gjaldendur í landinu. Ég tel þess vegna að nefskatturinn sé frumhlaup og vitleysa og ég vona það og eiginlega trúi því að hann verði aldrei að veruleika, líka vegna þess að gefið er í skyn einhvers staðar í þessum plöggum, ég rakst á það, að menn muni fara yfir skattlagninguna aftur fljótlega og velta því fyrir sér hvort rétt sé að standa að málum með þessum hætti. Þar er sérstaklega vísað til þess hversu misjafnlega þetta getur komið niður á fjölskyldum.

Einnig er ástæða til að hafa það í huga að aðferðin við fjármögnunina á ekki að koma til framkvæmda fyrr en á árinu 2009. Það bendir auðvitað til þess að menn vilji hafa svigrúm til þess að skoða sig um áður en þetta verður að lögum. Mér þykir slæmt að það eru ekki margir þingmenn Framsóknarflokksins í salnum — ég sé þó að hæstv. forseti, sem situr að baki mér, er úr þeim flokki og ber ábyrgð á frumvarpinu með félögum sínum í Framsóknarflokknum — vegna þess að ég ætlaði að hafa hluta ræðu minnar um tilurð málsins og það hvernig kaupin virðast gerast á eyrinni hjá stjórnarflokkunum.

Við fengum að hlýða á ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar í fyrradag. Ég hlustaði grannt á hana. Þar fór hv. þingmaður vandlega yfir samþykktir Framsóknarflokksins um Ríkisútvarpið og rökstuddi það með býsna skýrum hætti að Framsóknarflokkurinn hefði aldrei samþykkt að setja hf. fyrir aftan Ríkisútvarpið og þar af leiðandi ekki heldur ohf. Mér fannst eins og hann lýsti þessu, hann las samþykktirnar fyrir okkur, að þetta væri réttur skilningur hjá hv. þingmanni. Hann lýsti því sérstaklega yfir að sér hefði komið algjörlega á óvart þegar síðasta samþykkt Framsóknarflokksins um þetta efni frá árinu 2005, þegar farið var að túlka hana með þeim hætti sem þingmenn Framsóknarflokksins gera nú, aðrir en hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson eða a.m.k. þeir sem við höfum heyrt tala í þingsalnum.

Það er mikið umhugsunarefni hvernig Framsóknarflokkurinn treystir sér til þess að ganga gegn tillögum og hugmyndum sem samþykktar hafa verið á flokksþingum flokksins. Það hlýtur að vekja mann til umhugsunar um önnur mál sem hv. flokkur, ef nota má þetta ávarp um flokk — (Forseti hringir.)

(Forseti (JónK): Nú er kominn sá tími sem ætlaður var fyrir matarhlé. Ég vil losa hv. þingmann við að tala um Framsóknarflokkinn á fastandi maga þannig að við gerum hálftíma hlé áður en áfram er haldið með umræðuna.)

Ég þakka hv. forseta hugulsemina. Það er mjög kærkomið að fá að borða áður en ég held áfram með kaflann um Framsóknarflokkinn. Hann verður ekki mjög langur en mér þykir ágætt að fá að flytja hann síðar í dag.