133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:00]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Málið sem hér er enn einu sinni komið til umræðu er um formbreytingu á Ríkisútvarpinu, nú í ohf. eða opinbert hlutafélag. Þetta er þriðja tilraun. Fyrst sáum við frumvarp ríkisstjórnarinnar um að breyta Ríkisútvarpinu í sf., þá frumvarp um að breyta því í hf. og nú sjáum við frumvarp um að breyta Ríkisútvarpinu í ohf.

Eftir þá miklu umræðu sem staðið hefur um málið er ljóst að það er mikið keppikefli Sjálfstæðisflokksins að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Framan af virtist Framsóknarflokkurinn standa gegn þeim breytingum í samræmi við ályktanir flokksins á mörgum landsfundum um að aldrei kæmi til greina að breyta Ríkisútvarpinu í þá átt sem hér stendur til eða ætlunin var með síðustu tveimur frumvörpum. Framsóknarflokkurinn ályktaði svo að með Ríkisútvarpið yrði farið eins og með sjálfseignarstofnun.

Hluti af þessu máli er hins vegar að Framsóknarflokkurinn er nánast kominn að fótum fram og mælist nú í pilsnerfylgi í nokkrum kjördæmum. Í skoðanakönnunum sjást tölur sem aldrei hafa sést áður hjá þeim flokki, tölur sem verða vonandi að veruleika í vor. Því ræður undirlægjuháttur og allt að því aumingjaskapur Framsóknarflokksins gagnvart samstarfsflokki hans. Margir þingmenn hafa gert að umtalsefni og rætt um að Framsóknarflokkurinn þurfi að kaupa stóla sína dýru verði. Sumir tala um að stóll forsætisráðherra hafi m.a. verið keyptur þessu verði eftir síðustu kosningar þar sem fyrrverandi formaður flokksins hafi þurft að henda að baki sér öllum ályktunum framsóknarmanna frá fyrri árum, t.d. frá árunum 1999 og 2003. Því fórnaði hann fyrir að fá að freista þess að tylla sér í stól forsætisráðherra þótt setan yrði frekar stutt og raunar frekar snubbótt. Það endaði auðvitað með frægri brottför fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins Halldórs Ásgrímssonar. Eins og hér hefur komið fram, virðulegi forseti, hefur Framsóknarflokkurinn mátt gjalda fyrir setu sína í ríkisstjórn, m.a. með stuðningi við málið sem hér er til umræðu.

Aumt er hlutverk þeirra og slæm útreið í þessu máli eins og ýmsum öðrum. Hér hefur ýmist verið rætt um breytingu á Pósti og síma í hlutafélag sem endaði svo með sölu eða ótal önnur mál þar sem aumingja veslings Framsóknarflokkurinn hefur þurft að láta undan. Framsóknarflokkurinn festist vonandi í þessu fylgi en auðvitað munu kjósendur í vor, 12. maí næstkomandi, kveða upp dóm yfir störfum framsóknarmanna á þingi, í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum í þrjú kjörtímabil.

Ótal margt hefur verið sagt um þetta mál. Ég ætla að reyna að halda mig við tvo eða þrjá þætti þess, þ.e. annars vegar hvernig Ríkisútvarpið ohf. á að fá tekjur sínar í framtíðinni, hvernig það skuli rekið og svo aftur samkeppnisþátturinn, sem ég hygg gæti átt eftir að þvælast dálítið fyrir. Ýmislegt gæti átt eftir að gerast eftir að Ríkisútvarpinu hefur verið breytt í hlutafélag. Þá munu samkeppnisaðilar ganga fram og jafnvel kæra. Málin munu jafnvel fara alla leið til Brussel og gæti komið niðurstaða á borð við í máli TV2 í Danmörku.

Hið versta við málið er að maður treystir Sjálfstæðisflokknum ekki vegna þess að sporin hræða. Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa talað um einkavæðingu og sölu Ríkisútvarpsins og er þar helst að nefna hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, sem nú er formaður menntamálanefndar, hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Birgi Ármannsson, sem situr á forsetastóli. Þeir hafa verið á þeirri skoðun að Ríkisútvarpið eigi ekki að vera í opinberri eigu og afskipti ríkisins af því eigi að hætta með sölu einstakra deilda þess. Það eru sem sagt þessi spor sem hræða.

Ég vil líka taka fram að ég hef ekki verið neitt hræddur við að breyta ýmsum bæjar- og ríkisfyrirtækjum í hlutafélög. Ég nefni t.d. rafveitur og hitaveitur. Ég hef ekki séð mikla ókosti við það og ekki verið hræddur við að breyta formi þeirra fyrirtækja. Ég tók þátt í því sjálfur að selja rafveitur og hitaveitur, selja þær til Rariks sem svo er orðið hlutafélag. Ég sé enga hættu við það en tek skýrt fram að maður staldrar við þegar kemur að samfélagslegum fyrirtækjum eins og Ríkisútvarpinu þegar maður heyrir boðskap þeirra hv. þingmanna sem ég nefndi ásamt boðskap annarra sjálfstæðismanna sem ekki sitja á þingi en eru vel virkir í þjóðfélaginu. Þeir hafa lýst því yfir hvernig skuli fara með Ríkisútvarpið í framtíðinni. Menn hræðast sporin og við það set ég spurningarmerki. Andstaða mín við málið er m.a. vegna þess sem sagt hefur verið af þeirra hálfu.

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka fyrir tekjustofna hins væntanlega fyrirtækis. Eins og fram kemur í frumvarpinu er það mjög mismunandi meðal Evrópuríkja hvaða tekjustofna útvarpsstöðvar, sem flokkaðir eru undir opinber þjónustufyrirtæki, hafa. Algengasti tekjustofninn er leyfisgjald eða afnotagjöld sem styðjast venjulega við eign á sjónvarpsviðtæki. Einnig tíðkast leyfisgjald ásamt sérstöku gjaldi til ríkisútvarpsstöðva, gjald sem er a.m.k. lagt á aðrar útvarpsstöðvar, sömuleiðis leyfisgjald og auglýsingatekjur eða auglýsingatekjur ásamt greiðslum af fjárlögum. Oftast eru tekjustofnarnir fleiri en ein og er algengasta samsetningin afnotagjald og auglýsingatekjur.

Síðan er fjallað um sjónvarpstilskipun Evrópusambandsins. Þar er fjallað um útvarpsþjónustu í almannaþágu og allt sem því tengist. Annars vegar er fjallað um samkeppnisþátt viðkomandi rekstrar og hins vegar almannaþjónustuþáttinn, sem þó er kveðið á um að verði að aðskilja í bókhaldi til að koma í veg fyrir að ríkisframlög, nefskattur eða hvaða tekjur það eru, séu notuð í samkeppni.

Hingað til, virðulegi forseti, hafa Íslendingar greitt afnotagjald sem nú er 2.921 kr. á mánuði fyrir útvarps- og sjónvarpsnotkun. Það eiga öll heimili í landinu sem hafa sjónvarp að greiða. Þekkt eru dæmi um að starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa farið um með einhverja skanna eða njósnara til að kanna hvort sjónvarpstæki séu á heimili hjá þeim sem ekki hafa borgað. Auðvitað var það svo áður að einhverjir komust upp með að borga ekki. Það var í raun óþolandi ósanngjarnt meðan þessi háttur var hafður á. Auk þess hefur Ríkisútvarpið haft auglýsingatekjur.

Allt frá upphafi sjónvarpsrekstrar á árinu 1966 hafa verið leyfðar auglýsingar í sjónvarpi Ríkisútvarpsins og stofnunin haft af þeim tekjur. Sú ráðstöfun hefur ætíð verið nokkuð umdeild. Í upphafi var hún gagnrýnd af dagblöðum sem töldu vegið að tekjuöflunarmöguleikum sínum og á síðari árum hefur gagnrýni einkum komið frá keppinautum á sjónvarpsmarkaði sem einnig hafa gagnrýnt lögbundin afnotagjöld til Ríkisútvarpsins. Í skýrslu starfshóps um endurskoðun á útvarpslögum frá 1996 kom tillaga meiri hluta starfshópsins um að Ríkisútvarpið hyrfi alveg af auglýsingamarkaði. Í skýrslunni var á því byggt að í vændum væri mikil samkeppni milli einkarekinna sjónvarpsstöðva. Sú hefur hins vegar ekki orðið raunin.

Virðulegi forseti. Í samkeppnislögum eru auglýsingar í sjónvarpi og auglýsingar í blöðum ekki metnar til jafns. Á þær er litið sem tvo aðskilda hluti. Segja má að auglýsingar í útvarpi skiptist í hljóðvarpsauglýsingar og sjónvarpsauglýsingar. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, virðulegi forseti, að í umræðum sem hér hafa farið fram, og í skoðanaskiptum á Alþingi sem úti í þjóðfélaginu, eru skiptar skoðanir á því hvort Ríkisútvarpið eigi að fá að halda áfram á auglýsingamarkaði eða ekki. Það er skiljanlegt að samkeppnisaðilar vilji losna við Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði en aðrir vilja halda í að auglýsingar birtist þar áfram.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að út frá samkeppnissjónarmiði er ég þeirrar skoðunar að Ríkisútvarpið eigi að vera áfram úti á auglýsingamarkaði. Ég rökstyð það með því að ég held að það í því efni eigi sér stað samkeppni milli sjónvarpsins og Stöðvar 2 og Skjás eins. Ég held að það veiti ekkert af því. Ég óttast að ef einn aðili dytti út af þessum markaði, þ.e. Ríkisútvarpið eða hinar stöðvarnar, þá mundi verð hækka. Manni skilst á mörgum sem kaupa þessar stöðvar að þær kosti sitt í dag. En vafalítið sæi, líkt og gerst hefur á mýmörgum sviðum þar sem samkeppni hefur minnkað, einhver sér leik á borði á eftir. Sú hækkun mundi færast yfir fleiri svið. Ég get tekið eitt nærtækt dæmi sem ég þekki mjög vel. Fyrirtæki í mínu kjördæmi hafa sýnt okkur fram á að eftir að strandsiglingum um Ísland lauk og allt færðist upp á þjóðvegina þá hafi flutningskostnaður hækkað mikið. Sama gæti átt sér stað ef Ríkisútvarpinu yrði bannað að selja auglýsingar í sjónvarpi og hljóðvarpi.

Í áliti frá Sambandi íslenskra auglýsingastofa er tekið undir þetta. Mig langar að fara aðeins yfir þá umsögn sem annars vegar er um að þá verði fátæklegra á markaðnum og auglýsingar nái til færri aðila, en hins vegar er ekki mikið fjallað um það sem ég hef mestar áhyggjur af, þ.e. að ef einhver færi út af markaðnum og samkeppnin minnka, þá mundi verðið hækka.

Í umsögn Sambands íslenskra auglýsingastofa segir m.a. svo, með leyfi forseta:

„Í ljósi umræðna undanfarið um stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði í tengslum við frumvarp á Alþingi um ný lög um Ríkisútvarpið vill félagsfundur SÍA, haldinn 29. nóvember 2006, leggja áherslu á eftirfarandi atriði:

Félagsfundur SÍA lýsir miklum efasemdum á þeirri skoðun að takmarka beri aðgang RÚV að auglýsingamarkaði. Ástæða þess er sú að RÚV er öflugur fjölmiðill sem höfðar til stórs hóps neytenda með dagskrá sinni í útvarpi og sjónvarpi. Á meðan svo er málum komið er það algjörlega andstætt hagsmunum neytenda og auglýsenda að ekki sé möguleiki að auglýsa í Ríkisútvarpinu. Í nútímaupplýsingaþjóðfélagi er það réttur hvers fjölmiðils að eiga kost á að birta neytendum auglýsingar, óháð því hver eignasamsetning miðilsins er. Slíkt er sjálfsögð þjónusta við neytendur, að þeir eigi kost á sem breiðustu upplýsingamagni í þeim miðli sem þeir nota. Lítil sem engin umræða hefur verið um hver yrði staða neytenda ef RÚV hverfur af auglýsingamarkaði. Félagsfundur SÍA telur hins vegar að þetta sé mjög mikilvægt atriði sem ekki megi verða út undan í þeirri umræðu sem nú fer fram um stöðu RÚV.

Félagsfundur SÍA tekur ekki afstöðu til þess hvort rétt eða rangt sé að hið opinbera standi í rekstri fjölmiðla sem reknir eru að hluta til með auglýsingafé. Ljóst er að með núverandi fyrirkomulagi ríkir ákveðið ójafnvægi í samkeppnisstöðu milli Ríkisútvarpsins og einkarekinna ljósvakamiðla hvað tekjuöflun varðar. Hér er hins vegar bent á þær aðstæður sem koma upp ef aðgangur RÚV að auglýsingamarkaði er takmarkaður að nokkru eða öllu leyti. Aðgangur auglýsenda að stórum hópi landsmanna takmarkast þá mjög og aðgangur almennings að nauðsynlegum upplýsingum verður þar af leiðandi takmarkaðri. Þá er ekki ólíklegt að minni samkeppni á auglýsingamarkaði geti leitt til fákeppni og til hækkunar á auglýsingaverði sem aftur geti leitt til hækkunar vöruverðs.

Í þessu ljósi skal bent á að það finnast nánast engin fordæmi þess að svo stór fjölmiðill sem RÚV er hafi horfið af auglýsingamarkaði. Ríkisreknar stöðvar um allan heim hafa yfirleitt verið reknar með eða án auglýsingatekna frá upphafi starfsemi sinnar, því er engin reynsla sem hægt er að vísa til með þá stöðu sem kæmi upp ef RÚV hyrfi af auglýsingamarkaði.

Hlutverk auglýsinga er fyrst og fremst að vera upplýsingaveita; að veita upplýsingar til neytenda, hvort sem um er að ræða skilaboð um verð og gæði vöru og þjónustu eða almennar upplýsingar sem snerta beint bættan hag almennings og almannaheill. Þær eru því mikilvægur hluti nútímasamfélags.

Brotthvarf RÚV af auglýsingamarkaði eða skertur aðgangur mundi almennt séð skerða þessa sjálfsögðu þjónustu, bæði við almenning og auglýsendur. Því er það skoðun félagsfundar SÍA að hagsmunum auglýsenda og almennings sé betur fyrir komið með óheftu leyfi miðla til birtinga auglýsinga, þar með talið RÚV.“

Virðulegi forseti. Þetta var umsögn Sambands íslenskra auglýsingastofa um þennan þátt. Sem betur fer kemur það ekki fram í frumvarpinu að menn ætli að setja auglýsingabann á Ríkisútvarpið. Ég hef sagt og segi það enn að lokum um þennan þátt að það er m.a. vegna fákeppni. Fákeppni yrði þó að tveir sjónvarpsmiðlar stæðu eftir og nokkrar útvarpsstöðvar. Auðvitað yrði fákeppni vegna þess að sumar af þeim útvarpsstöðvum sem eru til staðar nást ekki út um allt land og ekki sumar sjónvarpsstöðvar heldur, þó svo að það hafi staðið til bóta allra síðustu ár og þá kannski meira í tengslum við mikla og stóra íþróttaviðburði sem deila hefur þurft að út til allra landsmanna. Þetta gæti sem sagt leitt til fákeppni og hækkunar á auglýsingaverði, sem aftur gæti leitt til hækkunar vöruverðs sem er beinn fylgifiskur þess ef þetta mundi gerast. Sem betur fer er þetta ekki í frumvarpinu en auðvitað tekur maður eftir því í umsögn samkeppnisaðila, t.d. 365 miðla og Skjás eins, að talað er um þetta og umræða hefur verið töluverð í þjóðfélaginu um að þetta gæti gerst.

Virðulegi forseti. Ég held að allt sé komið hvað varðar auglýsingaþáttinn. Mig langar þá að snúa mér að þeim tekjustofni sem ætlaður er í staðinn fyrir afnotagjaldið, því gjaldi sem almenningur á að greiða til ríkissjóðs sem síðan rennur til Ríkisútvarpsins, þ.e. að nefskattur komi í staðinn fyrir afnotagjaldið. Ekki hefur verið mikið rætt um nefskattsleiðina. Ég sé í nýjustu útgáfu af frumvarpinu að nefskatturinn er kominn upp í 14.580 kr., ef ég man rétt, og á að leggjast á hvern einstakling 16 ára og eldri en ekki sjötuga og eldri.

Virðulegi forseti. Útvarps- og sjónvarpsgjaldið, þ.e. 2.900 kr. á mánuði, er um 35.000 kr. á ári. Aldraðir og öryrkjar fá 20% afslátt, þeir greiða því í kringum 28.000 kr. á ári í afnotagjöld. Miðað við það sem hér er sett fram og þann nefskatt sem reiknaður er út greiða tveir einstaklingar á heimili svipaða tölu og þó örlítið lægri eða 29.160 kr. á ári. Séu hins vegar þrír í heimili er þetta komið upp í tæpar 44.000 kr. eða 25% hækkun frá því sem nú er og séu fjórir í heimili, sem er ekki óalgengt, hjón með tvo unglinga þess vegna á skólaaldri, þá er gjaldið komið upp í rúmar 58.000 kr. Það þýðir hvorki meira né minna en 66% hækkun á því gjaldi sem fólk borgar í dag. Enda er það svo að í öllum gögnum sem maður hefur lesið um nefskatt, og getur maður farið allt aftur til 1969, að mig minnir, þar sem Benedikt Gröndal hafði rætt hann á Alþingi og kem ég kannski að því síðar, að ósanngjarnt er hvernig nefskatturinn leggst á stórar fjölskyldur, barnmargar fjölskyldur. Þó að 16 ára og yngri séu undanþegnir gjaldinu borga hjón með tvo unglinga á heimilinu, báða í skóla, rúmar 58.000 kr. sem er 66% hækkun frá því sem nú er.

Ég er ekki alveg viss um að þetta hafi almennilega komist til skila út í þjóðfélagið vegna þess að þetta á ekki að taka gildi fyrr en 1. janúar 2009, ef ég man rétt. Þá munu menn kannski reka upp ramakvein þegar álagningin kemur til framkvæmda og spyrja hvað menn hefðu verið að samþykkja á þessum árum og af hverju ekki hefði verið tekið tillit til þeirra þátta sem ég hef gert að umtalsefni, þ.e. barnmargra fjölskyldna, og hvernig skatturinn leggst á þær. Hann leggst líka á námsmenn sem eru fyrir ofan 70.000 kr., eða hvað lágmarkið er, en sem betur fer er tiltölulega auðvelt að komast upp fyrir það. Þetta mun hækka gjald hjá eldri borgurum, 67–70 ára miðað við það sem er í dag, og öryrkjum. Nefskattsleiðin, þó svo að hún sé hér talin betri, auðveldari í framkvæmd, og ódýrara fyrir Ríkisútvarpið að innheimta nefskattinn en afnotagjaldið, þá er hún með nokkuð mörgum ókostum.

Ég vek líka athygli á því sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur sett fram úr ræðustól Alþingis og spurt um og ekki verið svarað, en það varðar þá fjölmörgu aðila sem eingöngu greiða í dag fjármagnstekjuskatt, þ.e. 10% skatt af fjármagnstekjum sínum, engan tekjuskatt og þar af leiðandi ekkert útsvar, að þeir yrðu gjaldfríir hvað varðar nefskattinn. (Gripið fram í: Er það ekki í takt við ójöfnuðinn?) Jú, ég hugsa að það sé í takt við ójöfnuðinn sem hefur verið að aukast mikið í þjóðfélaginu í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Nú hef ég það ekki, virðulegi forseti, hversu margir einstaklingar greiddu eingöngu fjármagnstekjuskatt á því síðasta skattaári sem við höfum tölur um en þeir eru fjölmargir. Áður hefur verið vakin athygli á þessu og er þetta svona í takt við ýmislegt sem er að breytast í þjóðfélaginu, að þeir greiða ekki nefskatt til Ríkisútvarpsins og ekki heldur útsvar til viðkomandi sveitarfélags. Þetta er auðvitað eitthvað sem hæstv. ríkisstjórn verður að taka á og skoða og spekúlera í hvernig á að fara með. Eiga sveitarfélögin að fá einhvern hluta af þessum fjármagnstekjuskatti? Hvernig á Ríkisútvarpið að fá tekjur sínar af þeim einstaklingum sem þannig háttar til um, sem borga bara fjármagnstekjuskatt en ekki þetta gjald til Ríkisútvarpsins?

Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál. Það er einnig í sjálfu sér alvarlegt mál og hefði átt að skoða betur, þó að ég sé ekki mikill talsmaður fyrir aukna skattheimtu en er þó jafnaðarmaður og tel að jafna megi betur skattheimtuna í landinu, hvernig nota mætti tekjurnar til að jafna lífskjör fólks, að þá hefði ég talið, miðað við það sem hér er sett fram, að lögaðilar, þó mismikið eftir stærð þeirra, ættu að leggja meira til Ríkisútvarpsins til að skapa tekjur fyrir það. Það gerist ekki með nefskattinum vegna þess að allir lögaðilar sem greiða skatt og eru með einhverja starfsemi greiða aðeins eitt gjald í formi nefskatts, 14.580 kr. á hverja eina kennitölu, sama hvort fyrirtækið heitir Exista eða Kaupþing, Glitnir eða Landsbanki, hin stóru, miklu og glæsilegu bankafyrirtæki, eða hin stóru og glæsilegu útgerðarfyrirtæki, meðan farið er inn á heimili þar sem fjórir einstaklingar búa og þurfa að borga tæpar 60 þús. kr. í nefskatt og fá á sig hækkun sem nemur 66% frá því sem nú er. Þetta eru vankantarnir að mínu mati á nefskattinum, þó svo ég taki undir það sem hér kemur fram að hann er ódýr í innheimtu. Í raun er mjög ódýrt að breyta nokkrum formúlum í skattkerfi landsmanna þar sem skattstjórar leggja á þennan nefskatt sem rennur til Ríkisútvarpsins.

Ýmislegt fleira mætti segja um nefskattinn. Með nefndaráliti minni hluta menntamálanefndar á frumvarpinu um Ríkisútvarpið sf. er umsögn dagsett 6. maí 2005 frá efnahags- og viðskiptanefnd. Hún er undirrituð af hv. þingmönnum Jóhönnu Sigurðardóttur, Lúðvík Bergvinssyni og Ögmundi Jónassyni. Þá er þar fylgiskjal, þ.e. álit Þorsteins Þorsteinssonar, forstöðumanns markaðs- og afnotasviðs Ríkisútvarpsins, um fjármögnun Ríkisútvarpsins. Í 5. kafla skýrslu hans er fjallað um nefskattinn. Mig langar að grípa niður í athugasemdir hans sem eru faglega fram settar, rætt um kosti og galla, hver gjaldstofninn er o.s.frv. Það er ansi athyglisvert sem kemur fram um nefskattinn í kafla 5.1. Mig langar að lesa hann upp, með leyfi forseta, sérstaklega orða Benedikts Gröndals, fyrrverandi formanns útvarpsráðs og síðar ráðherra til margra ára og formanns Alþýðuflokksins, um þetta mál:

„Nefskatturinn virðist vera sá kostur sem stjórnvöld velta einna mest fyrir sér um þessar mundir. Hægt er að hugsa sér nefskatt sem legðist á alla einstaklinga í landinu á aldrinum 18–70 ára. Í því tilfelli mundu 187.617 einstaklingar greiða 15.306 kr. í árgjald eins og fram kemur í töflu 3.“ — Þarna voru menn sem sagt að tala um 15.306 kr. Áður voru þetta 13.250 en nú eru það 14.580 kr.

„Þessi síðastnefnda leið var rædd og skoðuð á Alþingi árið 1969. Þá sagði Benedikt Gröndal alþingismaður og þáverandi formaður útvarpsráðs m.a.:

„Það er búið að tala um að gera hljóðvarpsgjald að nefskatti í fjöldamörg ár. Það er búið að rannsaka það aftur og aftur en það hefur alltaf verið horfið frá því af því að við framkvæmdina koma í ljós stórfelldir gallar á því kerfi. Ég ætla ekki nú enn einu sinni að gera það að umræðuefni en ég vil aðeins segja það að vegna tilkomu sjónvarpsins 1966 er sú hugmynd þegar orðin úrelt. Það næsta sem kemur til greina og verður vafalaust gert er hið sama hér og í öðrum löndum að sameina hljóðvarps- og sjónvarpsgjald í eitt sameiginlegt gjald.““ — Síðan er fjallað um þetta.

„Nefskattinum var á sínum tíma hafnað á þeirri forsendu að hann leiddi til verulegrar misskiptingar þar sem mannmörg heimili gætu lent í því að greiða þrjú til fimm ígildi afnotagjalda og sum ekkert. Ekkert hefur breyst í þessum efnum á þeim 35 árum sem liðin eru síðan þetta var síðast rætt á Alþingi. Þessum ókosti mætti þó hugsanlega eyða með því að skilgreina eina greiðslu fyrir hvert heimili í landinu. Þeirri aðferð fylgja þó ýmis vandamál sem tengjast framkvæmd og eftirliti á sama hátt og við innheimtu afnotagjalda. Á hinn bóginn mætti færa gild rök fyrir því að mannmörg heimili ættu að greiða meira en þau sem mannfærri eru.

Eins og áður hefur verið bent á eru rök fyrir afnotagjaldi meðal annars þau að þannig hafi RÚV tengsl við eigendur sína, þjóðina. Alltaf er nokkur hópur landsmanna sem á ekki sjónvarp og velur að eiga ekki sjónvarp. Með nefskatti væru samt sem áður allir greiðsluskyldir.

Menn geta spurt sig hvort einhver eðlismunur sé á nefskatti og núverandi fyrirkomulagi þar sem RÚV heyrir hvort eð er undir stjórnvöld. Kostir nefskatts eru vissulega nokkrir. Hér má nefna að skatturinn félli á fleiri en afnotagjöld gera og yrði þar með lægri. Nefskattur væri heldur ekki miðaður við eignarhald á viðtæki og hentaði því betur í því tækniumhverfi sem nú gerir innheimtu afnotagjalds erfitt fyrir.

Vandinn við að útfæra nefsköttunina væri fólginn í því að aðskilja þá sem búa inni á öðrum. Hér má samkeyra þjóðskrá, fjölskyldunúmeraskrá og fasteignaskrá og finna þá sem ekki búa hjá öðrum og senda þeim reikninginn. Þetta er í raun og veru það kerfi sem notast er við í dag nema með skattheimtu slyppu fræðilega séð færri undan gjaldi hvort sem um tækjanot er að ræða eður ei. Við fyrstu sýn virðist vera erfitt að skjóta sér undan með þessari fjármögnun en það þyrfti að kanna betur.“

Ekki skil ég hvernig greinarhöfundur kemst að þeirri niðurstöðu að það sé erfitt að skjóta sér undan nefskatti.

„Enn önnur leið væri sú að innheimta gjaldið í gegnum skattframtal eins og gert er með gjald í gegnum Framkvæmdasjóð aldraðra sem er gjaldfast með framtali. Þá væri um að ræða nefskatt á alla einstaklinga sem telja fram. Grunnurinn væri þá byggður á svokölluðum skattnúmerum og samanstæði af 217.064 númerum.

Skattnúmeraleiðin mundi þýða árlega greiðslu sem næmi 13.230 kr. á hvert númer, sé miðið við sama framlag og afnotagjaldið gefur RÚV í aðra hönd í dag. Þetta fyrirkomulag væri þó afar óréttlátt gagnvart mannmörgum heimilum með 16 ára einstaklingum og eldri a.m.k. sé miðað við afnotagjaldið.“

Þarna kemur staðfesting á því sem ég var að ræða um og gerði að umtalsefni áðan þar sem ég sýndi fram á að á fjögurra manna fjölskyldu mundi gjaldið til útvarpsins aukast um 66%. En kostirnir eru eins og áður hefur komið fram að í nefskattinum væri innheimtan alfarið í höndum stjórnvalda og gjaldfærð með skattframtali einstaklinga, með öðrum orðum hefur verið búin til smáformúla í skattkerfi hjá skattstjórum. Þetta kemur þannig út.

Kostina telur greinarhöfundur felast í ódýrari og skilvirkari innheimtu en með innheimtu afnotagjalds í núverandi mynd. Hann er og óháður nýrri tækni til móttöku útvarps og sjónvarps, sem er auðvitað hárrétt. Í dag þarf ekki að eiga útvarp og sjónvarp til þess að hlusta á útvarp eða horfa á sjónvarp. Það er einfaldlega gert gegnum tölvur eða önnur tæki.

Síðan dregur greinarhöfundur fram gallana:

Þeir eru m.a. þeir að dregið yrði úr sjálfstæði Ríkisútvarpsins.

Aðkoma fyrirtækja að fjármögnun RÚV væri engin. Það hefur hins vegar verið bætt í þessu frumvarpi með því að lögaðilar komi inn í þótt það mætti hugsa sér að lögaðilar legðu meira til Ríkisútvarpsins og því meira sem fyrirtækin væru stærri. Það er ekkert óeðlilegt.

Þessi leið er talin ótryggari fjármögnun en innheimta afnotagjalda. Ekki veit ég hvernig það er fundið út.

Skatturinn kæmi misjafnt niður á heimilum. Það hef ég dregið fram, það misrétti sem þarna væri gagnvart mannmörgum heimilum eins og Benedikt Gröndal talaði um 1969. Sú kostnaðarvitund sem almenningur hefur með afnotagjaldinu verður ekki jafnskýr.

Ég held að kostnaðarvitund almennings gagnvart afnotagjöldunum sé sáralítil í dag vegna þess að þetta er eins og annað komið inn í greiðsluþjónustu banka. Frá sumum bönkum fær fólk í greiðsluþjónustu ekki einu sinni kvittanir. Þetta er bara ein millifærsla í upphafi hvers mánaðar yfir á einhvern greiðslureikning og síðan er það allt saman millifært frá bankanum og fólk þarf sáralítið að koma að því.

Að lokum nefnir hann minni samtöðu um þessa aðferð á meðal þjóðarinnar en um afnotagjöldin í núverandi mynd, samanber viðhorfskönnun Gallups árið 2002 sem fjallað er um í greininni. Þar kom fram að töluvert mikil andstaða í þeirri könnun sem gerð var 2002 við þessa nefskattshugmynd. Ég hygg, virðulegi forseti, að í þeirri miklu umræðu sem farið hefur fram um þetta mál hafi m.a. þessi þáttur ekki ratað mikið inn í umfjöllunina. Ég held að það verði ekki fyrr en fólk fær skattseðilinn vegna tekna 2008, þ.e. skattálagningu 2009, að það áttar sig á nefskattinum sem hér er um að ræða og leggjast mun af meiri þunga á mannmargar fjölskyldur en aðrar, sem er aðalókosturinn við þessa leið að mínu mati.

Í þeirri samantekt sem ég hef gert að umtalsefni, Þorsteins Þorsteinssonar, forstöðumanns markaðs- og afnotasviðs Ríkisútvarpsins, er í næsta kafla fjallað um innheimtu byggða á fasteignagrunni. Hann gerir þeirri aðferð góð skil og eftir yfirlestur á þeim kafla spyr maður sig af hverju þetta var ekki skoðað betur af stjórnvöldum sem leggja til nefskattsleiðina. Hvað er erfiðast og hverjir eru ókostirnir við að fara fasteignagrunnsleiðina?

Þar er rætt um að gallinn sé sá að þeir sem ekki hafi viðtæki mundu samt sem áður þurfa að greiða gjaldið. Það er eiginlega ókostur sem fellur um sjálfan sig vegna þess að ég hygg að leiða megi líkur að því að allir horfi einhvern tíma á sjónvarpið eða hlusti einhvern tíma á útvarp, hvort sem það er gert í gegnum sjónvarpsviðtæki, útvarpsviðtæki eða gegnum tölvu. Það er eðlilegt að komast að þeirri niðurstöðu að í öllum fasteignum séu einhvers konar miðlar og eðlilegt að greiða fyrir þá þjónustu.

Ókostirnir eru líka þeir að þar sem kerfið hefur hvergi verið reynt í heiminum er alltaf sú hætta til staðar að ófyrirséðir ókostir komi í ljós eftir vissan reynslutíma og það geti í einstaka tilfellum leitt til mismununar í skattheimtu. Þetta á auðvitað líka við um nefskattinn sem leiðir til mismununar í skattheimtu hjá mannmörgum fjölskyldum.

Ég held, virðulegi forseti, að full ástæða hefði verið til að skoða þetta betur og þarna hefði átt að skoða að ýmsir lögaðilar greiddu meira. Ég held að ég fari að láta staðar numið hvað þennan þátt varðar, þ.e. um tekjuhliðina, en í umsögn minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar frá 6. maí 2005 segir undir lokin, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn gagnrýnir að ekki hafi verið skoðaðar aðrar leiðir miðað við þá mörgu galla sem eru á því að taka upp nefskattinn. Má þar nefna leiðir sem áður er getið og fram koma í skýrslu Þorsteins Þorsteinssonar, forstöðumanns markaðs- og afnotasviðs Ríkisútvarpsins, frá því í maí 2004. Þar er bent á átta mismunandi útfærslur í fjármögnun RÚV. Skýrsluhöfundur mælir þar helst með innheimtu byggðri á fasteignagrunni. Minni hlutinn tekur undir það að þann kost hefði mátt kanna frekar. Útfærsla á þeirri leið þar sem fast gjald yrði á hverri fasteign ásamt því að lögaðilar tækju meiri þátt í fjármögnun RÚV er miklu vænlegri en nefskatturinn. Þorsteinn benti á að með þeirri leið sem hann hefur skoðað um innheimtu byggða á fasteignagrunni hefðu lögaðilar greitt fjórðung af fjármögnun RÚV. Auk þess hefði með föstu gjaldi á hverja fasteign, sem ekki hefði þurft að vera hærri en nefskatturinn, 13.500 kr., hefði verið hægt að sneiða hjá þeim stóra galla að í mörgum tilvikum þurfa fjölskyldur með ungmenni á heimilunum að greiða allt að tvöfalt hærri fjárhæð en núgildandi afnotagjald. Fjöldi annarra leiða kom einnig til greina og vísar minni hlutinn í því sambandi til skýrslu Þorsteins um fjármögnun RÚV, sem fylgir áliti þessu sem fylgiskjal.

Með vísan til framangreinds telur minni hlutinn vinnubrögð ríkisstjórnarinnar við ákvörðun um fjármögnun RÚV forkastanleg, enda virðist engin skoðun hafi farið fram á því hvað leið sé heppilegust út frá sjálfstæði Ríkisútvarpsins eða hagsmunum almennings. Það sjónarmið eitt virðist hafa ráðið ferðinni að gera það sem tæknilega var auðveldast í framkvæmd og þar byggt á skattheimtunni í Framkvæmdasjóð aldraðra þar sem allt aðrar forsendur liggja til grundvallar.“

Þetta sögðu hv. þingmenn Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson og Ögmundur Jónasson þegar var verið að ræða um þetta frumvarp sem þá hét Ríkisútvarpið sf.

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem fram kemur í síðustu málsgrein þessa álits vegna þess að svo virðist vera að í kapphlaupi ríkisstjórnarinnar við að koma saman þessu frumvarpi og því sem við erum að ræða hér nú hafi ekki verið farið sérstaklega í gegnum þetta og það eitt hafi orðið ofan á við að velja nefskattinn, þ.e. það sjónarmið sem kemur fram í þessu að þar mætti spara einar 80 millj. kr. í innheimtu á afnotagjaldinu eins og það er núna. Ef það eitt hefur verið notað þarna sem leiðarljós þá má auðvitað gagnrýna það að þetta hafi ekki verið skoðað betur.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki heyrt í umræðu á Alþingi um þetta mál, hvorki síðustu tvö ár né nú, fjallað mikið um þennan nefskatt og þá tekjumöguleika sem settir eru fram til þess að gefa Ríkisútvarpinu þær tekjur sem það sannarlega þarf á að halda áfram til þess að sinna þessum almannaskylduþætti sem hér er svo mikið rætt um.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það og segi enn einu sinni um leiðina sem hér er farin að ég hygg að það muni gjósa upp í þjóðfélaginu mikil óánægja hjá sérstaklega mannmörgum fjölskyldum þegar þessi nefskattur verður lagður á og þegar fólk fer að finna það á veskinu sínu og eigin efnahag, þegar fjögurra manna fjölskylda þarf að fara að borga tæpar 60 þús. kr. nefskatt til Ríkisútvarpsins í stað þess að borga 35 þús. kr. eins og núna.

Það virðist einhvern veginn vera þannig að þetta hafi gleymst, þetta hafi ekki verið tekið til. Fólk gerir sér ekki almennilega grein fyrir hvað er hér á ferðinni. Aðalókosturinn við nefskattinn er sá sem Benedikt Gröndal ræddi um þegar 1969 og hefur verið fjallað um.

Virðulegi forseti. Það er kannski tilgangslaust að spyrja hæstv. menntamálaráðherra út úr. En ég hafði hugsað mér að leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. ráðherra. Þar sem fimm eða tíu mínútur lifa af þessum fundi krefst ég þess þó ekki að ráðherrann verði kallaður nú til umræðunnar. En ég spyr auðvitað sjálfan mig að því hvernig gangi með stofnefnahagsreikninginn sem talað er um í þessu frumvarpi að verði lagður fram á næstunni. Vera kann að það hafi farið fram hjá mér en ég kannast ekki við það að sá stofnefnahagsreikningur sé kominn fram. (Gripið fram í: Jú, jú, hann er kominn fram.) Hann er kominn fram. Þá er hægt að fara í gegnum hann. En auðvitað spilar inn í hér hvernig lagt verður af stað með þetta barn. Hvað verður til dæmis um það sem hér er fjallað um, skuldirnar sem þeir þurfa að greiða ríkissjóði?

Virðulegi forseti. Ég sagði hér áðan að Framsóknarflokkurinn, sá fyrrverandi félagshyggjuflokkur, lætur Sjálfstæðisflokkinn teyma sig á asnaeyrunum í aumkunarverðri og slæmri göngu í þessu máli eins og svo fjöldamörgum öðrum. Framsókn er á flótta í málinu. Allur kraftur, þor og dugur er úr þeim flokki. Hann stendur ekki í lappirnar gagnvart nokkru einasta atriði sem frá Sjálfstæðisflokknum, samstarfsflokknum, kemur. Það virðist vera þannig að Sjálfstæðisflokkurinn getur gert hvað sem honum sýnist, alltaf mun B-deildin í Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokkurinn, fallast á það þó með semingi sé og láta troða þessu ofan í kokið á sér.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki núna að ræða um það en ég get ekki látið hjá líða að minnast enn einu sinni á það þegar Framsókn lét troða ofan í sig stuðningi við innrásina í Írak forðum. Það hefur svo komið fram síðar hvernig það var gert. Annars vegar var tekin ákvörðun af þáverandi hæstv. forsætisráðherra Davíð Oddssyni sem vafalaust hefur hringt í þáverandi hæstv. utanríkisráðherra Halldór Ásgrímsson og tilkynnt honum hvað þar hafi verið gert og hvað hann hafi sagt og hverju hann hafi lýst yfir. Og Framsókn lét þetta yfir sig ganga, studdi þetta og varði þetta. Og þó svo að núverandi formaður flokksins, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hafi gert tilraun til að fría sig af þessu og tala um að þetta hafi verið rangt þá kom hann á Alþingi tveimur dögum seinna og þá var það allt saman horfið.

Virðulegi forseti. Ég hefði viljað í lokin fara yfir samkeppnisþáttinn sem hér hefur töluvert mikið verið rætt um af mörgum þingmönnum og meðal annars hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni í ræðu sem ég hlustaði á í gær, að mig minnir. Ég hygg, þar sem þetta er mín fyrri ræða, að ég muni geyma samkeppnisþáttinn. En auðvitað er maður kannski hvað hræddastur um hvað gerist þegar Ríkisútvarpið verður orðið hlutafélag. Hvað gerist þá hjá aðilum á þessum markaði eftir það? Munu þá líða margir dagar þar til þau fyrirtæki kæra Ríkisútvarpið vegna samkeppnislagabrota og annarra þátta? Er það kannski það sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að fá fram með þessu frumvarpi, þ.e. að hér logi allt í illdeilum um Ríkisútvarpið eftir að það hefur verið einkavætt, hlutafélagavætt, að þá muni loga hér allt í deilum um það, kærumálum og kannski verður niðurstaðan úr því að Ríkisútvarpið verður dæmt í háar fjársektir. Er Sjálfstæðisflokkurinn að fara bakdyraleiðina að því að koma Ríkisútvarpinu fyrir kattarnef, að koma Ríkisútvarpinu í einkaeigu úr ríkiseigu?

Ég endurtek það sem ég hef áður sagt, virðulegi forseti, að sporin hræða vegna þess að hvað margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sagt hingað til um Ríkisútvarpið og aðrir málsmetandi menn Sjálfstæðisflokksins úti í bæ. Þess vegna held ég að það væri best — og ég ítreka það sem hér hefur komið fram um sáttaboð stjórnarandstöðu til stjórnarinnar — að gildistöku þessara laga verði frestað.

Hæstv. menntamálaráðherra hefur oft óskað eftir því að við fáum að greiða atkvæði. Þá skil ég hana svo að hún vilji að Alþingi greiði atkvæði. En ég er þeirrar skoðunar að almenningur í landinu eigi að fá að greiða atkvæði í komandi alþingiskosningum og þá muni það koma út úr þeim kosningum hvort hér verður breyting í ríkisstjórn og hægt verði að taka það mál upp eða hvort núverandi ríkisstjórnarflokkar halda meiri hluta. En ég held að það væri farsælasta leiðin til að ljúka þessu máli, virðulegi forseti, að ríkisstjórnarflokkarnir gætu fallist á að gildistímanum yrði frestað. En ég óttast að þráhyggjan sé orðin of mikil varðandi þetta mál sem hér hefur tekið svo langan tíma.

Það er gaman að segja frá því, virðulegi forseti, hér í lokin, af því stjórnarsinnar tala um að búið sé að tala um þetta mál í 120 klukkustundir að þá kemur í ljós að það er á síðustu þremur þingum. Ég mundi ráðleggja ríkisstjórnarflokkunum og þeim sem hafa talið klukkutímana að fara aftar og ég er viss um að þeir gætu komist í 500–700 klukkustunda umræðu um Ríkisútvarpið ef það yrði bara farið aftar og rætt um það svoleiðis. Þá hefur umræðan verið mikil um Ríkisútvarpið hér á hinu háa Alþingi.

Virðulegi forseti. Nú þegar klukkan á eftir fimm mínútur í fimm þá lýk ég máli mínu.