133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:53]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður tók upp það sem ég hélt fram í gær, þ.e. að ég sæi ekki betur en að fjármagnseigendur, þeir sem eingöngu hafa fjármagnstekjur, mundu sleppa við að greiða þennan nefskatt. Mér fannst það svo skelfilegt að í dag óskaði ég eftir því við nefndasvið Alþingis að það færi yfir það hvort þetta væri rétt, að fjármagnseigendur, þeir sem eingöngu lifa af fjármagnstekjum, mundu sleppa við þennan nefskatt. Það hef ég fengið staðfest núna áðan að svo er, að fjármagnseigendur, þeir sem eingöngu lifa á fjármagnstekjum, sleppa við skattinn. Ég vil rifja upp í því sambandi að við álagninguna á síðasta ári í ágúst þá lifa 2.200 manns eingöngu af fjármagnstekjum, 6.600 voru með hærri fjármagnstekjur en launatekjur. Að minnsta kosti 2.200 manns af þessum hefðu sloppið við þennan nefskatt ef hann hefði verið í gildi á síðasta ári. Þetta finnst mér alveg skelfilegt á sama tíma og fólk sem er með rétt yfir 90 þús. kr. tekjur mun þurfa að greiða þennan nefskatt.

Ég vil benda hv. þingmanni á eina hlið málsins sem ekki hefur verið rædd mikið í þinginu. Fólk sem hefur kannski 95 þús. kr. í tekjur, hefur með einhverjum hætti aflað sér kannski 5 þús. kr. tekna, mun þá, þ.e. vegna þessara 5 þús. kr. tekna, þurfa að greiða þennan nefskatt sem er upp á 14.580 kr. Auk þess þarf það að greiða gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra upp á 6 þús. Rúmlega 20 þús. skattlagning verður því á þetta fólk ef það vinnur sér inn 5 þús. kr. í tekjur.

Það er ekki hægt að ganga frá málinu með þessum hætti. Ég mun óska eftir því áður en þessari umræðu lýkur að hæstv. ráðherra svari því í þessari umræðu hvort henni sé það ljóst að fjármagnseigendur muni sleppa við þennan skatt. (Forseti hringir.) Það er ekki bara að þeir sleppi við þennan skatt heldur sleppa þeir líka við gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra.