133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:58]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú hefur á valdatíð þessarar ríkisstjórnar helst verið mulið undir fjármagnseigendur meðan byrðarnar og skattbyrðin hefur verið aukin hjá þeim sem minnst hafa. Með þessu frumvarpi sem hér er verið að samþykkja er enn verið að auka á ójöfnuðinn í samfélaginu þannig að þeir sem eru bara með fjármagnstekjur, kannski milljónir á mánuði eða guð má vita hvað mikið, hvort það eru milljónir eða milljarðar, sleppa við þennan nefskatt. Mér finnst kóróna hér alveg fullkomlega óréttlætið og ójöfnuðinn í þessu þjóðfélagi ef málið á að ganga fram með þessum hætti.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að eyða töluvert mikið af sínum tíma í fjármögnun á RÚV. Það er alveg augljóst að við þurfum að ræða þetta mál miklu betur eftir helgi að því er varðar fjármögnunina. Það gengur ekki að ganga frá þessum málum á þann hátt að fátækar barnafjölskyldur standi kannski frammi fyrir því að greiða 60 þús. kr. — við skulum segja fjögurra manna fjölskylda — í nefskatt og síðan að greiða gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra meðan þeir sem eru með milljónir á mánuði eða milljarða á ári sleppa við að greiða bæði þennan nefskatt og gjaldið í Framkvæmdasjóð aldraðra. Jaðarskattaáhrifin eru svo mikil í þessu, virðulegi forseti, að bara af 1 þús. kr. tekjum, 2 þús. kr. tekjum fram yfir skattleysismörk þá getur fólk þurft standa frammi fyrir skattlagningu á yfir 20 þús. kr., fólk sem hefur sér ekki til hnífs eða skeiðar.

Það er mjög gott að hv. þingmaður dró þetta fram hér og studdi það sem ég sagði í mínu máli hér í gærkvöldi. Það er skelfilegt að svona sé staðið að málinu og þetta dregur fram enn einn gallann, virðulegi forseti, á þessu frumvarpi. Það er rangnefni að kalla þennan skatt nefskatt þegar stór hluti fjármagnseigenda sleppur við hann.