133. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2007.

gjaldskrá Herjólfs.

[10:39]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að bera fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra. Mig rak í rogastans þegar ég las núna laust fyrir helgi fréttablaðið Fréttir sem gefið er út í Vestmannaeyjum og sá á forsíðu að gjaldskrá Herjólfs eigi að hækka að meðaltali um tæp 12%. Þetta er mjög undarlegt og ég kem hingað til að spyrja hæstv. samgönguráðherra hverju þetta sæti. Vegagerðin er samningsaðili rekstraraðila skipsins sem er Eimskip. Vestmannaeyingar sjálfir hafa lýst yfir mjög mikilli furðu með þessa hækkun, eru nánast steini lostnir sem kemur m.a. fram í fréttum þar sem bæjarfulltrúar bæði minni hlutans og meiri hlutans lýsa yfir undrun sinni og vonbrigðum með þetta. Ég vil leyfa mér að vitna í Pál Scheving, oddvita V-listans í Vestmannaeyjum, sem segir svo, sem leyfi forseta:

„Við búum ekki í sama umhverfi og aðrir á landsbyggðinni. Flutningsgjöld eru hærri hér en annars staðar og fyrirtækin okkar eru ekki samkeppnishæf, vegna þessa. Auðvitað er þetta því mjög bagalegt.“

Oddviti sjálfstæðismanna og bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, Elliði Vignisson, tekur reyndar í sama streng og nefnir að sérstaklega farmgjöldin með Herjólfi séu allt of há, Vestmannaeyingar séu mjög ósáttir við þetta og þetta sé mjög vont mál því hér sé um að ræða aukaálögur á landsbyggðina. Við verðum að muna það, virðulegi forseti, að Vestmannaeyjar eru eyjar og Herjólfur er þjóðvegurinn til Vestmannaeyja. Hann fer fram á sjó en ekki landi og þess vegna hljóta svona álögur að vera mjög varhugaverðar. Vestmannaeyjar hafa verið í mikilli vörn undanfarin ár, mjög mikilli vörn eins og svo margar aðrar sjávarbyggðir umhverfis landið, því miður. Fólki hefur fækkað, atvinnulífið hefur á mörgum sviðum þurft að berjast í bökkum og það er alveg óskiljanlegt, virðulegi forseti, að ríkisvaldið skuli ekki sýna þessum vandamálum meiri skilning en raun ber vitni. Það finnst mér koma mjög vel fram í þessari ótrúlegu gjaldskrárhækkun Herjólfs.