133. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2007.

gjaldskrá Herjólfs.

[10:42]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ræða hv. þingmanns er auðvitað í algerri andstöðu við það sem við höfum verið að gera til að bæta (Gripið fram í.) samgöngur við Vestmannaeyjar. Ríkisstjórnin hefur lagt ríka áherslu á það. Það hefur m.a. birst í því að nú er veittur styrkur til að tryggja flug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Jafnframt var ferðum milli lands og Eyja með Herjólfi fjölgað mjög mikið. Hins vegar var sú samgönguleið boðin út, rekstur Herjólfs var boðinn út og það var gert á tilteknum forsendum. Samningurinn milli skipafélagsins og Vegagerðarinnar hefur að sjálfsögðu legið fyrir á tilteknum forsendum og ég geri ráð fyrir að þær breytingar sem hafa verið gerðar á gjaldskránni séu í samræmi við þann samning. Um það er á þessu stigi ekki meira að segja. Ég hef ekki fengið á mitt borð neinar athugasemdir við framkvæmd þess samnings. Aðalatriðið í mínum huga er að við höfum bætt og stóraukið þjónustuna við Vestmannaeyjar með þessum samgöngubótum en að sjálfsögðu væri æskilegt að ekki þyrfti að koma til hækkana. Samningurinn er þó staðreynd og eftir honum verður að fara.