133. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2007.

gjaldskrá Herjólfs.

[10:45]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega afar mikilvægt að okkur sé ljóst hér að Vestmannaeyjar eru eyjar eins og fram kom hjá hv. þingmanni. Á Alþingi þurfum við að vita það.

Það er alveg rétt að þessir flutningar voru boðnir út og á sínum tíma varð heilmikil breyting hvað það varðaði. Meðal annars þess vegna, og það var allt saman í góðu samstarfi við heimamenn, var hagsbótin af útboðinu nýtt til þess að auka þjónustuna, fjölga ferðum. Ég tel að Eyjamenn hafi kunnað mjög vel að meta það.

Það hefur komið rækilega fram að fjölgun ferða hefur verið mikilvægt innlegg í að efla atvinnustarfsemina og þjónustuna við íbúana í Vestmannaeyjum. Ég legg ríka áherslu á að svo verði áfram.

En auðvitað þarf að gera þá kröfu til rekstraraðilanna, sem í þessu tilviki hafa samið við Vegagerðina, að þeir gæti hófs í gjaldtöku. (Forseti hringir.) Ég mun leggja ríka áherslu á að svo verði.