133. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2007.

upplýsingar um fjárhagsstöðu RÚV.

[10:48]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að alla síðustu viku hefur staðið hér alvarleg umræða um áform ríkisstjórnarinnar um að einkavæða Ríkisútvarpið og breyta því í opinbert hlutafélag. Í þeirri umræðu hef ég hvað eftir annað gengið eftir því að fá svar við fyrirspurn sem lögð var fram hér á Alþingi 7. desember, og beint til menntamálaráðherra varðandi fjárhag Ríkisútvarpsins miðað við 1. desember 2006. Um þá fjárhagsstöðu hefur menntamálanefnd ekki verið kunnugt, einungis um fjárhagsstöðu útvarpsins miðað við mitt sumar og það í sjálfu sér á afar óljósan hátt eins og fram kemur í skýrslu nefndar sem falið var að gera stofnefnahagsreikning fyrir Ríkisútvarpið áður en því yrði breytt í opinbert hlutafélag.

Mér finnst með mestu ólíkindum, hæstv. forseti, að menntamálaráðherra skuli ævinlega, og nú síðast í morgun, láta gefa sér þau svör í ráðuneyti sínu að svarið sé væntanlegt, á morgun eða hinn daginn. Ég verð að fá að inna hæstv. ráðherra eftir því hér, beinum orðum, hvort meiningin sé að leyna Alþingi Íslendinga og þjóðina þessum upplýsingum.

Ég verð að lýsa því yfir að það er fullkomlega ótækt, virðulegi forseti, að ætla að fara að leiða þetta mál hér til lykta eða greiða um það atkvæði áður en þær upplýsingar sem hér er beðið um liggja fyrir, þ.e. upplýsingar um helstu stærðir í efnahagsreikningi Ríkisútvarpsins miðað við 1. desember 2006 og í rekstrarreikningi. Ég bið um sundurliðun á skuldum. Ég bið um stöðuna gagnvart ríkissjóði og sambærilegar tölur frá lokum árs 2004 og 2005.

Það liggur fyrir að það vantar 400 millj. kr. inn í þann samning sem hæstv. menntamálaráðherra hefur gert nú þegar, þ.e. þau drög sem liggja fyrir sem fylgiskjal með frumvarpi því sem rætt hefur verið. Það liggur fyrir að það þurfi að fara að endurnýja dreifikerfi Ríkisútvarpsins. Það liggur fyrir að það þurfi að fara að breyta hliðræna kerfinu í stafrænt. Það eru gríðarleg útgjöld fram undan.

Það liggur líka fyrir að stóran hluta eigi að fjármagna með því að ráða ekki í stöður sem losna en það er ófært að Alþingi Íslendinga fái ekki að vita fjárhagsstöðuna klárt og kvitt.