133. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2007.

upplýsingar um fjárhagsstöðu RÚV.

[10:51]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. menntamálaráðherra lýsir því yfir að mér hafi verið fullkunnugt um að svarið lægi ekki á ljósu og yrði ekki komið hér fyrr en einhvern tímann og einhvern tímann. Það er bara rangt.

Mér var gerð grein fyrir því í upphafi síðustu viku að það ætti að koma þann dag eða daginn eftir. Það er sama svar sem mér er gefið hér í dag. Það er ófært að ráðherrar skuli leyfa sér að gefa þingmönnum svör sem eru svo misvísandi og hafa í raun og veru enga þýðingu, svo sem raun ber vitni. Dag eftir dag hefur okkur verið gefið sama svarið í menntamálaráðuneytinu. Í dag eða á morgun.

Það verður að koma hæstv. ráðherrum í skilning um að þingmenn eiga hér ákveðinn rétt og það er óeðlilegt að ráðherrar gangi á rétt þingmanna að þessu leyti.

Varðandi síðan það sem hæstv. ráðherra klifar á, að hér eigi að fara að styrkja Ríkisútvarpið svo mikið að það eigi jafnvel að verða hægt að hækka eiginfjárhlutfallið upp í 15%, verðum við líka að athuga það að allt slíkt verður að fara í gegnum Alþingi. Hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) sækir ekki fjármuni neitt annað en til Alþingis.