133. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2007.

upplýsingar um fjárhagsstöðu RÚV.

[10:53]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni. Fyrirspurnir til ráðherra eru afar mikilvægt tæki fyrir þingið og þingmenn til að upplýsa um ýmis mál. Að sjálfsögðu ber ráðherrum að gera hvað þeir geta til þess að svara eins fljótt og unnt er þeim fyrirspurnum sem berast. Það er verið að gera nákvæmlega í þessu máli.

Ég ítreka það líka sem m.a. ríkisendurskoðandi sagði á fundi menntamálanefndar varðandi formbreytinguna á Ríkisútvarpinu. Hann gat þess sérstaklega að engin formbreyting eins og sú sem við erum að ræða hér, úr ríkisstofnun yfir í Ríkisútvarpið ohf., hefði verið unnin jafn vel og jafnítarlega og þessi breyting sem við erum að ræða um á Ríkisútvarpinu.

Ég ítreka það jafnframt, frú forseti, að Ríkisútvarpinu verður skilað þannig inn í hlutafélagið að það geti staðið undir þeim skuldbindingum sem við gerum til þess, a.m.k. með 15% eiginfjárhlutfall. (GAK: … þjóðarinnar.)