133. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2007.

úrræði í málefnum barnaníðinga.

[10:56]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í gærkvöldi var sýndur nokkuð áhrifaríkur og sláandi, svo að vægt sé til orða tekið, Kompássþáttur á Stöð 2 þar sem tálbeita var notuð til að kanna það sem umsjónarmenn þáttarins kalla barnaveiðar á netinu.

Sá sem gekk í gildruna í gær var dæmdur níðingur sem telst hafa barnagirnd á háu stigi, ef ekki ólæknandi. Maður sem hefur rústað líf margra barna og virðist vera haldinn ólæknandi löngun til að fremja þessa verstu glæpi sem hægt er að fremja, kynferðisbrot gagnvart börnum, helsjúkur einstaklingur sem er búinn að brjóta svo gróflega á svo mörgum að hann á ekki að ganga laus nema undir stífu og stöðugu eftirliti.

Þar að auki stundaði níðingurinn barnaveiðar sínar úr skjóli Verndar þar sem hann dvaldi eftir að hafa verið sleppt til reynslu þegar hann hafði lokið hluta afplánunar sinnar.

Þátturinn sýnir okkur að sjálfsögðu alvarlega brotalöm í kerfinu. Maðurinn er t.d. vistaður í fangelsi þar sem sálfræðiaðstoð er takmörkuð. Síðan er honum sleppt lausum til reynslu án þess öryggiseftirlits sem lög heimila að viðhaft sé í tilfellum sem þessum. Þetta er maður sem er hægt að ímynda sér í ljósi fyrri brota og niðurstöðu sálfræðimats að ætti heima á lokaðri réttargeðdeild en ekki innan veggja hefðbundins fangelsis eða laus til reynslu eftir að hafa lokið hluta afplánunar sinnar eins og er í þessu tilfelli.

Því vildi ég beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra hvort til endurskoðunar komi framhaldsúrræði fyrir slíka menn, úrræði sem byggja t.d. á öryggisgæslu að lokinni afplánun þegar um er að ræða jafnalvarlegt tilfelli og þetta? Og það sem rætt hefur verið um áður og kom m.a. fram í svari hæstv. dómsmálaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem hún spurði hvort slíka menn ætti að dæma til meðferðar, þá sem það geta uppfyllt?