133. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2007.

úrræði í málefnum barnaníðinga.

[10:58]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Telur hæstv. dómsmálaráðherra ekki að í ljósi upp kominna dæma á borð við þetta, og annarra sem kunn eru, þurfi að endurskoða þær aðferðir sem viðhafðar eru? Þurfa ekki að koma til endurskoðunar þau úrræði sem stuðst er við þegar um er að ræða glæpamenn á borð við þessa sem eru ólæknandi eða illa læknandi af jafnalvarlegum hlutum og barnagirndin er og eru að brjóta af sér eins og í þessu tilfelli í miðri afplánun á þeirri fangelsisstofnun sem Vernd er?

Þeirri spurningu hlýtur að þurfa að svara hvernig það megi vera að dæmdur barnaníðingur sé eftirlitslaus á vægri fangelsisstofnun tveimur og hálfu ári eftir að sex ára dómur er kveðinn upp yfir honum. Þetta er spurning sem við hljótum að þurfa að taka til umfjöllunar þegar fyrir liggur að svo er um að ræða.