133. löggjafarþing — 57. fundur,  22. jan. 2007.

almenn hegningarlög.

465. mál
[15:00]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum. Frumvarpið er samið að tilhlutan minni með góðri ráðgjöf frá Róbert R. Spanó, dósent við lagadeild Háskóla Íslands og Ásgerði Ragnarsdóttur, aðstoðarmanni hæstaréttardómara, og sömdu þau drög að frumvarpinu.

Hvatinn að því að frumvarp þetta er flutt er ekki síst sá að margar ábendingar hafa komið fram, sérstaklega frá lögreglumönnum, um að ofbeldi gagnvart þeim og öðrum sem fara með opinbert vald sé vaxandi og nauðsynlegt sé að lagaákvæði þeim til varnar taki mið af þeim breytingum og bæta eigi starfsumhverfi þessara embættismanna og opinberra starfsmanna með því að lögin endurspegli þessar breytingar á því umhverfi.

Í núgildandi lögum er ekki gerður greinarmunur á eðli þeirra starfa sem opinberir starfsmenn hafa með höndum hvort sem brot beinist gegn lögreglumanni, tollverði eða starfsmanni ráðuneytis. Refsimörk eða refsitegundir 106. gr. hegningarlaga eru því þær sömu hvort sem hinn opinberi starfsmaður hefur heimild til valdbeitingar eða ekki. Haldbær rök þykja standa til þess að gera greinarmun á þessu, þ.e. gera greinarmun á eðli þeirra starfa sem starfsmenn hins opinbera hafa með höndum. Lagt er til að sú refsivernd sem lögreglumenn njóti svo og aðrir opinberir starfsmenn sem hafa heimild til valdbeitingar séu í réttu hlutfalli við þá hættu á líkams- og heilsutjóni sem leiðir af eðli starfans. Þannig verði unnt að beita fangelsi allt að átta árum, ef brot beinist að opinberum starfsmanni sem hefur lögum samkvæmt heimild til líkamlegrar valdbeitingar, í stað sex ára fangelsis eins og nú er samkvæmt lögum. Eru þetta skýr skilaboð til dómstóla um að dæma þyngri refsingar við slíkum brotum en þegar litið er til þeirra dómareifana sem fylgja frumvarpinu verður að segjast að mikið skortir á að þessi brot séu litin alvarlegum augum.

Virðulegi forseti. Það er von mín að hækkun á refsihámarki 106. gr. almennra hegningarlaga hafi í för með sér að harðar verði tekið á slíkum brotum, að það hafi aukin varnaðaráhrif í för með sér og greiði þannig fyrir störfum lögreglumanna og annarra opinberra starfsmanna sem heimild hafa til valdbeitingar.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.