133. löggjafarþing — 57. fundur,  22. jan. 2007.

almenn hegningarlög.

465. mál
[15:14]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mál þetta sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur mælt fyrir kemur inn á svið sem er afar áhugavert á vettvangi dómsmálanna og lögfræðinnar. Þetta kemur inn á spekúlasjónir sem við höfum átt í allsherjarnefnd um refsiramma laganna og það hvernig dómstólar nýta refsirammann sem lögin gefa. Sömuleiðis inn á fælingarmátt refsinga sem er eilífðarviðfangsefni. Við höfum dæmi um nýlegar rannsóknir sem eru afar spennandi og leiða í ljós ýmsar staðreyndir varðandi fælingarmátt refsinga almennt.

Gera má ráð fyrir að um málið verði fjallað í allsherjarnefnd á þeim nótum að farið verði örlítið í hugmyndafræðina á bak við það, enda tengist málið öðrum málum sem við höfum verið að vinna í nefndinni.

Hæstv. dómsmálaráðherra nefnir í máli sínu hækkun refsidóma vegna fíkniefnamála. Við vitum að ástæða þess, að löggjafinn sá ástæðu til ekki fyrir margt löngu að þyngja eða auka refsirammann sem gefinn er í lögunum um fikniefnabrot, var kannski ekki síst sú að dómstólar höfðu þá verið farnir að nýta refsiramma laganna vegna þeirra brota nánast til fullnustu. Það var því orðin veruleg þörf út frá dómavenju að rýmka þar til, enda var það gert og ekki fyrirstaða fyrir slíkum breytingum hér á Alþingi. Á því yfirliti sem fylgir frumvarpinu á fylgiskjali númer I — þar sem raktir eru helstu dómar á árinu 2003–2006 þar sem einstaklingar hafa verið sakfelldir fyrir brot á 106. gr. almennra hegningarlaga — eru teknir fyrir dómar þar sem dæmt er fyrir brot gegn ákvæðinu eða önnur brot sem eru smávægileg og ekki líkleg til að hafa mikil áhrif á refsiþyngingar. Á yfirlitinu sést að dómstólar dæma fyrir brot af þessu tagi svona upp í þrjú ár skilorðsbundið. Ekki er verið að nýta þann ramma sem er til staðar samkvæmt lagagreininni sem mér skilst af hæstv. ráðherra að séu sex ár og verið er að leggja til í frumvarpinu að verði átta ár. Ég átta mig því ekki á hvað það er sem rekur hæstv. dómsmálaráðherra til að flytja þetta mál úr því að talsvert er eftir af svigrúmi fyrir dómstólana miðað við þá löggjöf sem er í gildi í dag.

Á sama tíma og dómstólar hafa verið að dæma eða nýta til fulls refsiramma í málum á borð við fíkniefnamálin, höfum við horft á dóma í kynferðisbrotamálum og ekki síst nauðgunarmálum, sem oftar en ekki eru langt, langt í frá að nýta þann refsiramma sem gefinn er í þeim málum. Hér er því um yfirgripsmikið mál að ræða þar sem þarf vissulega að gæta ákveðins samræmis, þar sem skoða þarf dómaframkvæmd heildstætt en ekki bara þröngt, þar sem skoða þarf niðurstöðu fræðimanna varðandi fælingarmátt refsinga almennt og nauðsynlegt að bera saman í þessu tilliti ólíkar tegundir mála. Ég verð að taka fram að ég er sannarlega ekki að gera lítið úr alvarleika þeirra brota sem um ræðir í frumvarpinu. Það má enginn skilja orð mín svo. En þetta opnar okkur umræðu inn á þetta málasvið á fremur breiðum nótum og ég tel einsýnt að um það verði fjallað í allsherjarnefnd á þann hátt að við getum skoðað málið heildstætt.

Að öðru leyti hef ég ekki mikið til málanna að leggja á þessu stigi, hæstv. forseti.