133. löggjafarþing — 57. fundur,  22. jan. 2007.

almenn hegningarlög.

465. mál
[15:18]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær góðu umræður sem orðið hafa um frumvarpið. Ég er sannfærður um að hv. allsherjarnefnd muni taka málið til gaumgæfilegrar athugunar, eins og önnur mál, og fullvissa nefndarmenn um að þetta hefur verið vel unnið og kallaðir til þeir sérfræðingar sem hafa góða yfirsýn yfir þetta.

Varðandi spurninguna um dómafordæmi vísa ég til þess sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu þar sem dómunum er lýst. Menn geta séð það og nefndin getur að sjálfsögðu kallað sérfræðinga sér til ráðuneytis um einstök mál.

Ég vil líka minna á þegar talað er um kynferðisafbrot að hv. allsherjarnefnd er með frumvarp um þau mál til meðferðar og ég vona svo sannarlega að nefndin ljúki þeirri yfirferð á þessu þingi þannig að við getum afgreitt það fyrir þinglok.

Varðandi tálbeitur sem ég var spurður um og beitingu þeirra hefur málið, eins og ég sagði á fundi í morgun, verið til skoðunar bæði í nefnd sem var skipuð af forvera mínum og skilaði skýrslu 1999 um sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglunnar. Þá skýrslu hefur réttarfarsnefnd haft til hliðsjónar þegar hún síðan semur frumvarp til laga um meðferð sakamála sem hefur verið kynnt m.a. á vefsíðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Ég vil aðeins lesa stutt það sem nefndin hefur að segja um tálbeitur, með leyfi forseta:

,,Nefndin álítur að þótt nauðsynlegt sé að fara að öllu með gát við notkun tálbeitu sé ekki nauðsynlegt að mæla fyrir um þessa rannsóknaraðferð í settum lögum. Telur nefndin skynsamlegra að setja fram leiðbeiningarreglur innan marka gildandi laga að teknu tilliti til dómsúrlausna.

Nefndin gerir tillögur um nokkrar meginreglur sem ávallt verði lagðar til grundvallar við notkun tálbeitu og að ríkissaksóknari gefi út fyrirmæli til lögreglustjóra byggð á þeim tillögum. Er þar m.a. kveðið skýrt á um hvaða yfirmenn taka ákvörðun um notkun tálbeitu og nánar rakin skilyrði fyrir beitingu úrræðisins. Það grundvallarskilyrði er haft að leiðarljósi að tálbeita verði ekki notuð til að kalla fram refsiverða háttsemi sem ella hefði ekki verið framin.“

Ég ítreka þetta sem hér segir, virðulegi forseti: ,,Það grundvallarskilyrði er haft að leiðarljósi að tálbeita verði ekki notuð til að kalla fram refsiverða háttsemi sem ella hefði ekki verið framin.“

Þetta er meginreglan sem hér er sett fram af hálfu nefndarinnar og eins og menn geta séð ef þeir kynna sér skýrsluna er farið yfir það með hliðsjón af úrlausnum Mannréttindadómstóls Evrópu og danskra dómstóla hvernig reglunum yrði best fyrir komið hér á landi. Ég get rakið það ef hv. þingmenn óska þess en ég tel ekki ástæðu til þess. Málið hefur komið til skoðunar hjá réttarfarsnefnd þegar hún hefur unnið að samningu frumvarpsins um meðferð sakamála sem væntanlega verður kynnt hér.

Um aðra þætti ætla ég ekki að ræða sérstaklega, virðulegi forseti. Ég vil bara ítreka þakkir mínar til þingmanna fyrir góðar undirtektir við málið.