133. löggjafarþing — 57. fundur,  22. jan. 2007.

dómstólar og meðferð einkamála.

496. mál
[15:22]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um dómstóla. Lögin eru frá árinu 1998 og hefur þeim aldrei verið breytt. Þótt meginefni frumvarpsins lúti að því gera réttarkerfið skilvirkara með því að veita aðstoðarmönnum dómara auknar heimildir eru einnig lagðar til aðrar breytingar á lögunum sem tímabærar þykja.

Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að dómurum verði fjölgað úr 38 í 40. Er fjölguninni ætlað að koma til móts við álag á héraðsdómstólum, auk þess sem þörf á setningum dómara minnkar til muna.

Í öðru lagi verður dómstjóra héraðsdómstóls veitt heimild til að fela löglærðum aðstoðarmönnum héraðsdómara að fara með dómstörf á ákveðnu, afmörkuðu leyti, samanber 6. gr. frumvarpsins. Meginfjöldi þeirra dómsmála sem héraðsdómstólunum berast á hverju ári eru svonefnd útivistarmál, þ.e. mál þar sem þing er ekki sótt af hálfu stefnda eða þingsókn hans fellur niður áður en greinargerð er skilað af hans hálfu og dómur er lagður á málið eftir þeim gögnum sem stefnandi hefur lagt fram. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er dómstjóra m.a. heimilað að fela aðstoðarmanni að ljúka málinu endanlega í sínu nafni og ábyrgð. Með því móti sparast tími héraðsdómarans, auk þess sem niðurstaða málsins er í nafni þess sem í raun vann að málinu. Sama má segja um aðra möguleika sem dómstjóra eru opnaðir til að fela aðstoðarmanni einstök dómstörf; þeir eru til þess fallnir að létta verulega vinnuálagi af héraðsdómurum, sem þar með gefst aukinn tími til að sinna því hlutverki að leggja dóm á munnlega flutt mál, hvort sem þau eru einkamál eða opinber mál.

Þá er lagt til í frumvarpinu að dómurum og þá eftir atvikum aðstoðarmönnum verði heimilað að fallast með áritun á kröfu um staðfestingu lögveðréttar í útivistarmáli. Yrði af þessari breytingu töluverður vinnusparnaður fyrir héraðsdómstólana. Þar sem í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að fela megi aðstoðarmönnum dómara ákveðin dómstörf er lagt til að tryggja starfsöryggi þeirra eftir föngum, samanber ákvæði 6. gr. frumvarpsins, um ráðningartíma og uppsögn.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir nýmæli um birtingu dóma Hæstaréttar, samanber 2. gr. frumvarpsins, þannig að sérregla gildi um birtingu úrskurða sem kveðnir eru upp í þágu rannsóknar lögreglu, en þeir hafa iðulega að geyma upplýsingar um málavexti sem ekki þykir rétt að verði gerðar opinberar strax að dómi gengnum.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir nýmæli um bann við myndatökum og öðrum upptökum í dómhúsum, samanber 6. gr. frumvarpsins. Undanskildar eru þær upptökur sem fara fram á vegum dómstólsins sjálfs, og eru þar hafðar í huga þær upptökur sem eðlilegar eru við rekstur dómstólsins, svo sem hljóðritun á framburði vitna og hefðbundin notkun öryggismyndavéla. Þá er gert ráð fyrir því að dómstjóri geti heimilað myndatökur og aðrar upptökur í einstök skipti með nánar greindu skilyrði. Brot gegn banninu varði sektum.

Í fimmta lagi hefur frumvarpið að geyma ákvæði er auka sjálfstæði dómara gagnvart dómstjóra, samanber 5. gr. frumvarpsins, og koma í veg fyrir að dómari verði gegn vilja sínum ávallt settur í sama málaflokkinn, t.d. í sakamálum.

Loks er lagt til að hlutverk dómstólaráðs til þess að koma fram í þágu héraðsdómstólanna sameiginlega gagnvart almenningi verði aukið og heimilt verði að ráða sérstakan fulltrúa sem sinni samskiptum við fjölmiðla og aðra sem leita eftir sértækum upplýsingum sem varða málefni dómstólanna.

Ég vil láta þess getið, virðulegi forseti, að eftir að frumvarpið var samið og lagt fram í þingi höfum við verið að skoða frumvarp til laga um meðferð sakamála. Í meðförum þess máls hafa komið fram hugmyndir frá dómstólaráði um að í stað þess að fjölga héraðsdómurum yrði komið á millidómsstigi, þ.e. dómstigi á milli héraðsdóms og Hæstaréttar. Þetta er mál sem sjálfsagt er að skoða að mínu mati. Það breytir ekki því að ég tel nauðsynlegt að leggja þetta til sem hér er gert í frumvarpinu. Yrði tekin ákvörðun um það síðar að koma á fót millidómstigi, þá mundu menn að sjálfsögðu taka mið af því við fjölda héraðsdómara.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.