133. löggjafarþing — 57. fundur,  22. jan. 2007.

dómstólar og meðferð einkamála.

496. mál
[15:50]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að ég og hæstv. dómsmálaráðherra eigum hugsanlega samleið varðandi upptöku millidómstóla eða sérhæfðra dómstóla en ég átta mig á að það er talsverður skoðanamunur milli mín og hæstv. dómsmálaráðherra að því er lýtur að myndatökum í dómsölum.

Mig langar að nota þetta stutta andsvar til að koma að öðru máli, fyrst við ræðum þennan málaflokk, en það mál lýtur að þeirri deilu sem hefur verið milli Barnahúss og Héraðsdóms Reykjavíkur. Við sjáum að allir héraðsdómstólar landsins nema Héraðsdómur Reykjavíkur nýta sér aðstöðu og sérhæfingu Barnahúss og þjóðin varð vitni að harðorðum ritdeilum milli þessara tveggja stofnana þar sem tekist var á um þetta. Af þeirri ástæðu báðum við í Samfylkingunni í allsherjarnefnd um fund í nefndinni til að ræða þessi mál. Af því tilefni heimsótti allsherjarnefnd bæði héraðsdómstólinn í Reykjavík og Barnahús.

Ég vona að ég sé ekki að leggja orð í munn viðkomandi forstöðumanna en manni skildist það á báðum aðilum að þeir gætu jafnvel sætt sig við lagabreytingu sem lýtur að því að fyrsta yfirheyrsla á barni verði ekki lengur hluti af dómshaldi eins og staðan er í dag. Héraðsdómurinn í Reykjavík lítur þannig á málið að þeir vilja hafa sína yfirheyrslu og dómsal í dómhúsinu, en ef fyrsta yfirheyrsla á barni sem grunur liggur á að hafi lent í kynferðislegri misnotkun verður klippt í sundur, þ.e. milli rannsóknaryfirheyrslunnar og dómsyfirheyrslunnar, væri hugsanlega hægt að ná því markmiði að yfirheyrslan færi fram í Barnahúsi og dómshaldið í dómhúsinu eftir það. Mig langar til að fá skoðun hæstv. dómsmálaráðherra á þessu álitamáli.