133. löggjafarþing — 57. fundur,  22. jan. 2007.

dómstólar og meðferð einkamála.

496. mál
[15:53]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur kosið að bíða með að gefa upp afstöðu sína þangað til hann leggur fram frumvarp um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála og kannski lítið við því að segja. En á meðan hann hefur ekki lagt fram það frumvarp langar mig að hvetja hæstv. dómsmálaráðherra til að huga að þeirri leið að klippt verði á milli þessara tveggja ferla, ef svo mætti segja, þ.e. að fyrsta yfirheyrsla á barni verði ekki um leið hluti af dómshaldinu í ljósi þeirrar gagnrýni sem núverandi fyrirkomulag þegar kemur að reykvískum börnum hefur fengið og verið sett í dagsljósið. Við þurfum auðvitað að beita bestu mögulegu þekkingu og aðstöðu þegar kemur að þessum viðkvæma málaflokki. Barnahúsið og það módel sem það starfar eftir hefur hlotið margvíslegar alþjóðlegar viðurkenningar og það væri virkilega sérkennilegt ef stærsti héraðsdómstóll landsins nýtti sér ekki þá frábæru aðstöðu sem þar er fyrir hendi. Hugsanlega er til staðar leið sem báðir aðilar geta sætt sig við, þannig skildi ég það a.m.k. þegar við heimsóttum héraðsdómstólinn í Reykjavík og Barnahúsið, að þessir tveir aðilar gætu sætt sig við ákveðna leið og öllum markmiðunum væri náð að sama skapi.