133. löggjafarþing — 57. fundur,  22. jan. 2007.

íslenskur ríkisborgararéttur.

464. mál
[15:55]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Frumvarpið hefur að geyma tillögur að ýmsum breytingum, einkum varðandi þau skilyrði sem umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt þurfa að uppfylla.

Frumvarpið er samið af nefnd sem ég skipaði í janúar 2006 til að endurskoða lög nr. 100 23. desember 1952, um íslenskan ríkisborgararétt. Í nefndinni sátu alþingismennirnir Guðrún Ögmundsdóttir, Bjarni Benediktsson og Guðjón Ólafur Jónsson auk Kristínar Völundardóttur, sýslumanns á Hólmavík, Fanneyjar Óskarsdóttur, lögfræðings í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, og Hauks Guðmundssonar, skrifstofustjóra í ráðuneytinu, sem jafnframt var formaður nefndarinnar.

Nefndin kallaði eftir sjónarmiðum ýmissa aðila og fékk á sinn fund fulltrúa frá Rauða krossi Íslands, Alþjóðahúsi, Útlendingastofnun og ríkislögreglustjóra. Þá fékk nefndin tölfræðigögn frá Þjóðskrá sem birtast í viðauka með frumvarpinu. Með hliðsjón af þeim gögnum fylgir innfelld spá um fjölda nýrra ríkisborgara á næstu árum miðað við tilteknar forsendur.

Ég tel því, virðulegi forseti, að frumvarpið hafi verið unnið af kostgæfni og vandvirkni og tel að þær tillögur að breytingum sem hér eru fluttar eigi eftir að styrkja stöðu íslenskra ríkisborgara og okkar sem þurfum að vinna að því að veita íslenskan ríkisborgararétt.

Enda þótt lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, hafi verið breytt fimm sinnum frá árinu 1982 hefur ætíð verið um að ræða lagfæringar og breytingar á einstökum atriðum.

Það er raunar umhugsunarefni að við afgreiðslu þeirra breytinga hefur aldrei komið til verulegra umræðna um þennan málaflokk hér á Alþingi. Ég taldi því nauðsynlegt að skipa þá nefnd sem ég gat um til að fara yfir þennan málaflokk með það fyrir augum að breyta ýmsum ákvæðum til samræmis við lagaþróun hér og í nágrannaríkjum og með tilliti til breyttra aðstæðna hér á landi. Það verður ekki fram hjá því litið að fjölgun útlendinga sem hér hafa sest að er svo mikil að hún hefur gjörbreytt aðstæðum í þessum málaflokki og kallar á yfirferð yfir ákvæði laganna.

Nefndin var, eins og áður segir, skipuð þremur þingmönnum tilnefndum af allsherjarnefnd, þremur embættismönnum í dómsmálaráðuneytinu og undirstofnunum þess og frumvarpið er samið af nefndinni.

Gerð er grein fyrir helstu breytingum í almennum athugasemdum við frumvarpið og eru þær í stuttu máli þessar:

Í fyrsta lagi er lagt til að samræma og tengja saman þau skilyrði sem útlendingar þurfa að uppfylla til að fá búsetuleyfi á Íslandi og þau skilyrði sem þeir þurfa að uppfylla til að öðlast íslenskt ríkisfang. Í lögum um útlendinga, nr. 96/2002, eru sett fram skilyrði þess að umsækjandi geti öðlast búsetuleyfi á Íslandi. Bent hefur verið á að þau skilyrði sem lögin setja fyrir þessum réttindum séu á margan hátt strangari en skilyrði laga um ríkisborgararétt. Því geti verið hagfelldara fyrir útlending að sækja um ríkisborgararétt en búsetuleyfi. Í frumvarpi þessu er mörkuð sú meginstefna að umsækjendur hafi þegar uppfyllt skilyrði búsetuleyfis og fengið það útgefið þegar sótt er um ríkisborgararétt. Auk þess verða umsækjendur að uppfylla frekari skilyrði, m.a. varðandi dvalartíma á Íslandi, áður en til álita kemur að veita þeim ríkisborgararétt. Eðlilegt þykir að þessi mál séu í samhengi þannig að útlendingar sem hér setjast að fái fyrst tímabundin dvalarleyfi, þá búsetuleyfi og að lokum ríkisborgararétt.

Í öðru lagi er í frumvarpi þessu hnykkt á þeirri meginreglu að valdheimildir til veitingar íslensks ríkisfangs eru að meginstefnu frá Alþingi, svo sem verið hefur frá fornu fari. Þegar Alþingi samþykkti með lögum nr. 62/1998 að veita dómsmálaráðherra heimild til að veita íslenskan ríkisborgararétt með stjórnvaldsákvörðun var um frávik að ræða frá þessari meginreglu. Lagt er til að því fráviki verði nú markaður skýrari rammi. Um leið verði kveðið á um að dómsmálaráðherra geti ávallt ákveðið að vísa umsókn um ríkisborgararétt til ákvörðunar Alþingis. Margvísleg rök hníga að því að haldið sé í þetta forræði þingsins á málaflokknum og ofangreindar ákvarðanir séu undanskildar sviði hefðbundins stjórnsýsluréttar.

Í þriðja lagi eru lögð til nokkur ný skilyrði þess að veita megi íslenskt ríkisfang með stjórnvaldsákvörðun, auk þess sem hnykkt er á nokkrum skilyrðum sem í framkvæmd hafa verið virt, svo sem að umsækjandi sýni fram á hver hann er. Á meðal þessara nýju skilyrða eru atriði sem lúta að gjaldfærni umsækjanda og því að hann hafi ekki stofnað til ógreiddra skattskulda, svo sem nánar greinir í athugasemdum um viðkomandi ákvæði. Það atriði sem mestu mun breyta í framkvæmd er það skilyrði að umsækjendur skuli að meginstefnu hafa sýnt fram á nokkra kunnáttu í íslensku. Mikilvægt er að um leið og þetta skilyrði er sett verði framboð á íslenskukennslu fyrir útlendinga bætt verulega frá því sem verið hefur. Nýleg ákvörðun um að stórbæta framboð á íslenskunámi fyrir útlendinga er því í raun forsenda þess að unnt sé að leggja þetta til. Þetta skilyrði nær til allra umsækjenda en heimilt er þó að veita undanþágur frá því, svo sem nánar greinir í athugasemdum við ákvæðið.

Í fjórða lagi er lagt til að sett verði nýtt ákvæði í lögin sem lýtur að því þegar umsækjandi veitir rangar upplýsingar við umsókn um ríkisborgararétt. Er mælt fyrir um refsiábyrgð og missi íslensks ríkisborgararéttar við þær aðstæður.

Virðulegi forseti. Í bréfi nefndarinnar sem fylgdi frumvarpinu kemur fram að nokkuð var rætt um tvöfaldan ríkisborgararétt. Rætt var um að leggja til að fallið yrði frá því að viðurkenna tvöfaldan ríkisborgararétt, a.m.k. að því er varðar þá sem taka upp íslenskt ríkisfang ellegar sækja um ríkisfang í öðru ríki, en ekki náðist samkomulag um þetta atriði í nefndinni. Ég tel fyllstu ástæðu til þess að sú hlið málsins verði rædd ítarlega í þinginu við afgreiðslu málsins.

Sú breyting var gerð á lögunum um íslenskan ríkisborgararétt fyrir fjórum árum að falla frá því að íslenskir borgarar afsöluðu sér íslensku ríkisfangi þegar þeir taka upp ríkisfang annars lands. Í framkvæmd hafði fram að þeim tíma ekki verið gerð sú krafa að útlendingar sem fengu íslenskan ríkisborgararétt afsöluðu sér sínum fyrri ríkisborgararétti en fram til 1998 var það einungis Alþingi sem veitti ríkisborgararétt. Við afgreiðslu í þinginu komu ekki fram efasemdir um þessa breytingu og raunar voru það eingöngu dómsmálaráðherra og formaður allsherjarnefndar sem tóku til máls.

Sú mikla fjölgun sem orðið hefur á umsóknum um veitingu íslensks ríkisborgararéttar er í sjálfu sér eðlileg afleiðing þess að sífellt fleiri útlendingar hafa kosið að setjast hér að. Ég vil ítreka að þessi mikla fjölgun sem fyrirsjáanlegt er að muni enn halda áfram næstu árin kallar á að við tökum afstöðu til ýmissa álitamála á þessu sviði. Það er staðreynd að með bættum samgöngum og breyttum viðhorfum býr vaxandi hópur fólks tímabundið í útlöndum, jafnvel um nokkurra ára skeið, án þess að ætla sér neitt annað en að snúa aftur til síns heima. Þetta á bæði við um Íslendinga erlendis og marga þá útlendinga sem hér dvelja. Ég tel ekki sjálfgefið að allur þessi hópur eigi að fá að bæta við sig íslensku ríkisfangi án þess að hann hafi tekið um það ákvörðun að setjast hér að til framtíðar. Í dómsmálaráðuneytinu finna menn fyrir því viðhorfi af hálfu margra umsækjenda, að íslenskur ríkisborgararéttur sé ekki annað en viðbótarréttindi sem menn sækja um t.d. til að geta ferðast áritanafrjálst til ýmissa ríkja frekar en að menn líti svo á að í veitingu íslensks ríkisfangs felist gagnkvæm skuldbinding um að viðkomandi skuli teljast Íslendingur jafnt í eigin augum og annarra.

Ég hef frétt um að efasemdir hafa vaknað í einstökum ríkjum vegna fjölmennra hópa ríkisborgara þeirra sem er að finna í fjarlægum löndum án sýnilegra tengsla vegna rúmra reglna um ríkisfang. Eins og fram kom í frumvarpi því sem ég nefndi áðan er misjafnt hvernig ríki haga löggjöf sinni að þessu leyti og ýmis ríki hafa endurskoðað löggjöf sína um þetta efni nýlega. Mörg ríki hafa valið þá leið að sporna gegn því að menn fái ríkisborgararétt sem viðbótarréttindi en viðurkenna þó tvöfalt ríkisfang í ákveðnum tilvikum.

Ef hljómgrunnur er fyrir því á þinginu að taka þennan þátt málsins til endurskoðunar er mikilvægt að vandað sé til verka og ekki gengið of langt. Ekki verði hróflað við tvöföldum ríkisborgararétti neins sem þegar hefur fengið hann. Þá tel ég rétt og sanngjarnt að miða við ákveðna gagnkvæmni í þessu efni þannig að við horfum sömu augum á þá Íslendinga sem vilja taka upp erlent ríkisfang og á útlendinga sem vilja fá íslenskan ríkisborgararétt. Ég er líka eindregið á þeirri skoðun að við eigum að viðurkenna tvöfaldan ríkisborgararétt í ýmsum tilvikum. Barn sem á eitt íslenskt foreldri og eitt erlent ætti að geta fengið ríkisborgararétt þeirra beggja, a.m.k. ef þau hafa bæði raunveruleg tengsl við sín heimaríki þannig að þau séu fædd þar og uppalin t.d.

Á hinn bóginn þykir mér orka mjög tvímælis að fjölskylda sem flust hefur tímabundið á milli landa án þess að segja skilið við upprunaríkið með þeim hætti að vilja sleppa ríkisborgararétti þar eigi að geta bætt við sig öðru ríkisfangi. Einnig hef ég efasemdir um þann möguleika sem er að finna í okkar löggjöf á að halda íslensku ríkisfangi lifandi í erlendri fjölskyldu kynslóð eftir kynslóð þótt lítil eða engin tengsl séu á öðrum grunni við Ísland.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpið fari til hv. allsherjarnefndar sem taki það til umræðu og ég mælist eindregið til þess við nefndina að hún fjalli um hugmyndirnar um tvöfaldan ríkisborgararétt og velti því fyrir sér hvort e.t.v. sé ástæða til að bæta í frumvarpið og gera að lögum ákvæði sem taka á því máli ekki síður en þeim brýnu álitaefnum sem tekið er á í frumvarpinu að öðru leyti.