133. löggjafarþing — 57. fundur,  22. jan. 2007.

íslenskur ríkisborgararéttur.

464. mál
[16:42]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Stefna ríkisstjórnarinnar varðandi innflytjendur til landsins hefur verið óskýr svo ekki sé meira sagt. Þá ályktun má m.a. draga af þeirri staðreynd að þingmenn úr stjórnarliðinu hafa óskað eftir því að fá að ræða stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum utan dagskrár. Ég vísa þar til beiðni frá hv. þingmanni Framsóknarflokksins, Sæunni Stefánsdóttur. Það hlýtur að undirstrika stöðuna í málaflokknum þegar jafnvel hv. þingmenn stjórnarliðsins skilja stefnuna ekki betur en svo að þeir þurfa nauðsynlega að ræða hana utan dagskrár við þann ráðherra sem í hlut á.

Það kemur fram í frumvarpinu sem hér liggur fyrir að það er sett fram til að marka skýrari stefnu og koma betra skikki á veitingu íslensks ríkisborgararéttar til þeirra sem þess æskja. Það má auðvitað draga þá ályktun að það mál hafi hugsanlega ekki verið alveg í nógu föstum skorðum. Á þeim tíma sem ég hef setið á þingi, síðan 1991, held ég þó að menn hafi að minnsta kosti þrisvar breytt og reynt að bæta þessi lög. Hugsanlega stafar þetta af því að við búum nú við allt aðrar aðstæður en áður.

Útlendingum hefur fjölgað gríðarlega hér á landi í samræmi við þörf Íslendinga fyrir aukið vinnuafl á miklum þenslutímum og í tengslum við alþjóðlegar skuldbindingar sem við höfum axlað með aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Frjáls för vinnuafls er einn af hinum fjórum frelsisþáttum sem eru undirstaða þess samnings. Ég tek skýrt fram að ég er ákaflega hlynntur þeim þætti samningsins. Ég held að hann hafi skipt okkur töluverðu máli, að fá hingað erlent fólk til starfa á Íslandi og það hafi glætt menningu okkar og lagt fram mikilvægan skerf til verðmætasköpunar hér á landi.

Ég verð að segja, svo afstaða mín sé alveg skýr, að ég tel ekkert að því að skoða vel allt það sem hér í þessu frumvarpi liggur. Ég er hlynntur flestu af því. Það sem orkar tvímælis í mínum huga er það mál sem hér hefur mest verið rætt. Ég vísa þar, herra forseti, til þess að sú kvöð verður lögð á þá sem vilja öðlast ríkisborgararétt hér á landi að þeir hafi ekki bara sótt sér menntun í íslenska tungu heldur geti þeir líka sýnt fram á einhverja lágmarksfærni.

Þetta er í sjálfu sér ekki óeðlileg krafa þegar hún er skoðuð. Ég er þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að gera þá kröfu til þeirra sem af fúsum og frjálsum vilja óska eftir því að gerast hluti af íslensku samfélagi að þeir geti samlagast siðum og háttum þeirra sem hér búa. Mér finnst það eðlileg forsenda. Það er partur af því að þeim verði tekið opnum örmum.

Á hinn bóginn þegar slíkar kvaðir eru lagðar á þá sem vilja gerast hluti af hinu íslenska samfélagi þá verður á móti sú kvöð að hvíla á öxlum þeirra sem fara með stjórnina að þeim sé gert það kleift. Það hefur komið fram í þessari umræðu að svo virðist sem brotalöm hafi verið á því, til skamms tíma að minnsta kosti, að nægilegt framboð væri á íslenskukennslu handa útlendingum. Þeir sem þekkja þau mál miklu betur en ég, eins og t.d. hv. síðasti ræðumaður Kolbrún Halldórsdóttir, telja t.d. að það þurfi sérstaka færni til þess að kenna tunguna þeim sem ekki hafa hana að móðurmáli. Ekki dreg ég það í efa.

Hitt er alveg ljóst, sem komið hefur fram í þeim umræðum sem hafa spunnist um stöðu innflytjenda á síðustu vikum og mánuðum að hér hefur pottur verið brotinn. Ég er sem sagt þeirrar skoðunar, frú forseti, að nægilegt framboð þurfi að tryggja, helst mjög víða á landinu, á kennslu í íslensku fyrir útlendinga. Í öðru lagi þarf að vera tryggt að fjárhagsleg geta dragi ekki úr möguleikum manna á að geta notað sér þá menntun. Mér finnst að það þurfi að koma skýrt fram hjá hæstv. ráðherra að svona eigi þetta að vera í framtíðinni.

Ég skal fúslega viðurkenna að þessi málaflokkur er mér nokkuð framandi. Ég hef ekki kynnt mér það til nokkurrar hlítar en ég hljóp í gegnum þetta frumvarp og hugsanlega yfirsást mér. En ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra, þegar hann lýkur umræðu um þetta mál hér á eftir, lýsi því alveg skilmerkilega yfir að fyrirhugað sé að bjóða upp á þessa kennslu án nokkurs endurgjalds. Ég tel það skipta máli. Í öðru lagi finnst mér, þegar sett eru lög eins og þessi, sem eiga að vera stoð undir reglugerðir þar sem verið er að leggja kvaðir og setja kannski stífan ramma um mál, þurfa að liggja fyrir í grófum dráttum með hvaða hætti þær reglur eiga að líta út.

Í 5. gr. frumvarpsins kemur fram að dómsmálaráðherra geti, eigi, sé eiginlega gert að setja reglugerð sem mæli fyrir um þær kröfur sem umsækjandi þarf að hafa staðist að því er íslenska tungu varðar. Þar er sömuleiðis mælt fyrir um tilteknar undanþágur frá þessu skilyrði. Í greinargerðinni er það allt saman frekar lauslega orðað þannig við umfjöllun málsins í hv. allsherjarnefnd tel ég að koma þyrfti fram a.m.k. grófur rammi að þeim reglum sem ráðherra hyggst setja og sömuleiðis þær undanþágur sem þar eiga að vera. Þetta finnst mér skipta töluverðu máli fyrir afgreiðslu og samþykkt þessa máls.

Þetta var það sem ég vildi um þetta mál segja, herra forseti. Að öðru leyti segi ég að mér finnst þetta mál heldur horfa til bóta. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki óeðlilegt að setja kröfur af því tagi sem hér eru. Hæstv. ráðherra sagði að það ætti í sjálfu sér ekki að vera auðvelt verk að verða íslenskur ríkisborgari. Menn eiga að uppfylla ákveðnar kröfur sem auðvitað eru þegar fyrir hendi.

Mig langar að lokum að spyrja hæstv. ráðherra nokkurs sem hugsanlega stafar af vanþekkingu minni og fávisku. Í dag er staðan sú, eins og ég hef skilið það best, að ef útlendingur á Íslandi sækir um ríkisborgararétt og dómsmálaráðuneytið telur að hann uppfylli ekki þau skilyrði skilst mér að viðkomandi geti óskað eftir því að það mál fari til skoðunar hjá Alþingi og hugsanlegrar afgreiðslu. Ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra: Verður nokkur breyting á því?

Ég vil í blálokin lýsa því yfir að mér finnst að svona reglur eigi að vera töluvert rúmar að því marki að ef um er að ræða að afreksmenn og sérstakt atgervisfólk sem hefur löngun til þess að setjast að hér á landi, þá eigi að taka sérstaklega á þeim málum. Ég vísa t.d. í mál eins og mál skákmannsins mikla Bobbys Fischers sem bæði hafði vissa sögulega skírskotun til hinnar íslensku þjóðarsálar og var sannarlega afreksmaður á sínu sviði.

Ég geri mér algerlega grein fyrir því að líkast til stangast þetta viðhorf á við stífustu kröfur um jafnræði. En ég tel eigi að síður að í þessum tilvikum, þegar íslensku samfélagi er verulegur fengur að því að fá slíkt fólk sem vill vera partur af okkur en hugsanlega uppfyllir ekki þær kröfur sem hér eru settar hér um íslenskukunnáttu, þá eigi menn að hugsa sig vel um áður en slíku yrði hafnað.