133. löggjafarþing — 57. fundur,  22. jan. 2007.

íslenskur ríkisborgararéttur.

464. mál
[17:00]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég og hæstv. dómsmálaráðherra erum sammála um mjög margt í þessum efnum. Ég er sérstaklega ánægður með það sem vafalítið hefur oft komið fram áður af hálfu ríkisstjórnarinnar, þó að ég hafi ekki tekið eftir því, að svo virðist sem það sé alveg ljóst að stefna stjórnvalda er að þetta nám fyrir útlendinga verði ókeypis.

Mig langar þá að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geri ráð fyrir að þessi kennsla verði boðin á mörgum stöðum á landinu. Eins og við vitum hnappast innflytjendur saman á ýmsum stöðum þar sem mikil vinna er í boði og mig langar til að inna hann eftir því hvort það liggi fyrir jafnvel einhver áætlun um það.

Í annan stað langar mig til að spyrja út í hvað það er sem veldur ákvörðuninni um 200 tímana. Ég hjó að vísu eftir því að hæstv. ráðherra segir að það sé tala sem menn séu að velta fyrir sér og sé ekki fastákveðin. Nú veit ég það af eigin reynslu að hæstv. ráðherra er giska góður málamaður og ég velti því fyrir mér hvort jafnvel þessi hæstv. ráðherra geti tekið til óspilltra málanna við nýtt tungumál og orðið sér úti um lágmarksfærni í því á 200 tímum. Mér koma í hug tungumál sem e.t.v. væri hægt að verða sér úti um slíka færni í á svo skömmum tíma en ég dreg mjög í efa að mér og hæstv. ráðherra mundi t.d. auðnast að komast almennilega niður í rússneskri tungu á svo skömmum tíma. Í árdaga menntaferils míns lagði ég stund á rússnesku. (Gripið fram í: Í hvaða tilgangi?) Í þeim tilgangi að kynna mér rússneskar bókmenntir, hæstv. ráðherra, í tvo vetur í virtustu menntastofnun þjóðarinnar, Menntaskólanum í Reykjavík. Það gekk bærilega og var að vísu innan við 200 stundir sem ég samtals hafði en það var einungis með alveg sérstakri kostgæfni og sérlegri iðni og ástundun sem mér tókst það. Ég veit ekki hvort þetta (Forseti hringir.) er nægilegur tími fyrir þá sem koma úr mjög ólíkum málsvæðum eins og hér hafa verið nefnd í dag. (Forseti hringir.) Þjóðverjar nota 600 stundir og erum við ekki báðir aðdáendur Þjóðverja, ég og hæstv. dómsmálaráðherra?