133. löggjafarþing — 57. fundur,  22. jan. 2007.

íslenskur ríkisborgararéttur.

464. mál
[17:02]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er þetta matsatriði. En ég bið hv. þingmann að hafa það í huga þegar hann ræðir þetta að þeir sem sækja um ríkisborgararétt hér á landi þurfa að hafa dvalið í landinu ákveðinn tíma. Það er misjafnt, ef fólk er í hjúskap, í þrjú ár, eða hvaða reglur það eru. Ef karl sem er kvæntur íslenskri konu eða kona gift útlendingi bæta síðan 200 tímum við til að búa sig undir að standast stöðupróf — ég er alveg viss um að okkur hv. þingmanni dygðu þrjú ár í sambúð með útlendingi til að öðlast þá tilfinningu fyrir málinu að við gætum á 200 tímum tileinkað okkur þá þekkingu sem gerði okkur kleift að standast eitthvert stöðupróf. Ég tala nú ekki um ef við værum sjö ár í landinu og ætluðum síðan að sækja um ríkisborgararétt og þá væri sagt: Til að standast þær kröfur sem við gerum verða menn að gangast undir ákveðið stöðupróf, við bjóðum 200 tíma ókeypis nám. Ég er viss um að okkur hv. þingmanni tækist jafnvel í Kína að tileinka okkur það á þann veg að við stæðumst það próf.

Það verður að líta á það að þetta er ekki fólk sem er að koma hingað til landsins til að setjast að og ætlar síðan eftir mánuð eða eitthvert 200 tíma hraðnámskeið að verða íslenskir ríkisborgarar. Það þarf aðlögun, það þarf langan tíma og síðan er þetta lokahnykkurinn varðandi tungumálið. Sumir þurfa örugglega ekki að fara í þetta námskeið heldur geta bara sest niður og tekið prófið og ég er viss um að hv. þingmaður, doktor, mundi gera það.