133. löggjafarþing — 57. fundur,  22. jan. 2007.

íslenskur ríkisborgararéttur.

464. mál
[17:04]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er bæði upp með mér og þakklátur fyrir þá miklu trú sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur á mér. Mér hefur reyndar virst í samskiptum mínum yfir þetta ræðupúlt fyrr á árum að hún hafi þá alla vega ekki brotist fram fyrr en á allra síðustu vikum og missirum. En svo lærir sem lifir.

Ég hugsa að það sé rétt sem hæstv. dómsmálaráðherra segir að ég og ýmsir sem hafa lært að læra gætu þetta, en ég velti því líka fyrir mér af hverju menn nota þessa tölu, 200 stundir. Hæstv. ráðherra gat um Þjóðverja í ræðu sinni áðan, þeir glíma við sama vanda. Í Þýskalandi er stórt þjóðarbrot sem kemur frá Tyrklandi. Eigi að síður eru svipaðar reglur um ríkisborgararétt varðandi dvöl í landi þar og hér en þeir eru samt sem áður með þrefalt lengri tíma.

Ég velti þessu bara upp vegna þess að ég virði vilja hæstv. dómsmálaráðherra til að ráða bót á ákveðnu vandamáli og greiða innflytjendum leiðina inn í íslenskt samfélag. Þessar vangaveltur mínar, þar sem ég er kannski meira að hugsa upphátt, beinast að því hvort þetta skref sé nægilega stórt. Bjóðum við upp á menntun sem er nægilega mikil til að þeir komist yfir þann hjalla sem tungumálið kann oft að vera í samskiptum þeirra við það samfélag sem fyrir er?

Ég ætla ekki að inna hæstv. ráðherra frekar eftir þessu en ég taldi rétt að benda á þetta. Þetta er eitt af því sem hlýtur að koma til skoðunar við umfjöllun nefndarinnar á lausn stjórnvalda á þessum vanda sem segja má að tungumálasamskipti séu í þessu tilviki.