133. löggjafarþing — 57. fundur,  22. jan. 2007.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

466. mál
[17:07]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Af mörgum merkum málum sem ég hef flutt í dag tel ég að þetta sé hið merkasta, því að hér er verið að binda enda á áralangar og árhundruða langar deilur ríkis og kirkju um yfirráð yfir landi hér, kirkjujörðum og pretssetrum og öðrum slíkum þáttum. Verið er að kynna lagabreytingu sem tengist samkomulagi sem gert var milli ríkisins og þjóðkirkjunnar og við undirrituðum 20. október 2006, biskupinn yfir Íslandi, herra Karl Sigurbjörnsson, Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra og ég. Það er birt hér sem fylgiskjal með frumvarpinu og þar er tekið á þeim útistandandi deilumálum sem voru á milli ríkis og kirkju og lauk með þessu samkomulagi.

Í frumvarpinu er annars vegar lögð til lögfesting á samkomulaginu milli ríkisins og kirkjunnar en með samkomulaginu afhendir íslenska ríkið þjóðkirkjunni til eignar prestssetur eins og nánar er greint frá í samkomulaginu. Hér er samkomulagið tíundað og listi yfir þær jarðir sem til álita voru í þessum samningaviðræðum. Það var ákveðið, eins og samþykkt hefur verið með fjárlögum, að auka fjárgreiðslur til þjóðkirkjunnar um 35 millj. kr. í því skyni að greiða fyrir þessu samkomulagi.

Hins vegar er lagt til í frumvarpinu að biskupi Íslands verði fengið veitingarvald til að skipa sóknarpresta. Eins og kunnugt er er það nú í höndum dóms- og kirkjumálaráðherra. Kirkjuþing hefur fjallað um þessar tillögur og fallist á þær fyrir sitt leyti, samanber 4. mgr. 23. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.