133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

svar við fyrirspurn um fjárhagsstöðu RÚV.

[13:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Hæstv. menntamálaráðherra og reyndar forseti vor verða að hafa í huga að við erum fleiri þingmenn en þeir sem sitja í viðkomandi fagnefnd og það þurfa allir að greiða atkvæði um málið og þar af leiðandi eiga allir rétt á sömu upplýsingum og að hafa þær í höndum. Og það þýðir ekkert að reyna að halda öðru fram en því að það er stórkostlega ámælisvert að svar við þessari mikilvægu fyrirspurn skuli fyrst berast nú í upphafi þess fundar þegar á að fara að ljúka umfjöllun um málefni Ríkisútvarpsins vegna þess að í því birtast alvarlegar upplýsingar. Það birtast í því upplýsingar um hríðversnandi afkomu útvarpsins sem tapaði 50 millj. á árinu 2004, tæpum 200 millj. á árinu 2005 og stefnir væntanlega í um 800 millj. kr. tap á þessu ári ef marka má 420 millj. kr. tap á fyrri helmingi ársins. Það er þar af leiðandi ekki blómlegur rekstur sem hér er verið að skila yfir hið fræga opinbera hlutafélag og það er ekki hægt að halda því fram að það hafi verið vel búið að Ríkisútvarpinu af hálfu stjórnvalda undanfarin ár.

Svo má spyrja: Hvers vegna tók allan þennan óratíma að draga þessar upplýsingar út úr bókhaldi Ríkisútvarpsins? Er það svo óaðgengilegt og illa uppfært og er staðan svo óljós frá degi til dags og mánuði til mánaðar að það skuli þurfa að verða stórkostlegur dráttur á því að reiða fram þessar upplýsingar, eða hvað? Hér er aðallega verið að notast við tölur frá fyrri árum, úr ársreikningum tveggja síðustu ára og milliuppgjöri á miðju ári. (Gripið fram í: Nei, ekki 1. des. tölur.) Já, en ég vitna nú í aðaltölurnar sem liggja fyrir. Hér er talað um árshlutareikning útvarpsins fram til 30. júní 2006 og hann ætti ekki að vera mönnum algerlega ókunnugur og fyrst það var uppáfært í ráðuneytinu núna eftir jólin.