133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

svar við fyrirspurn um fjárhagsstöðu RÚV.

[13:39]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er sannarlega sérkennilegur dráttur sem hefur orðið á þessu svari frá menntamálaráðherra og starfsmönnum hans en er raunar í stíl við þá upplýsingaþjónustu sem rekin er í menntamálaráðuneytinu gagnvart Alþingi og best sást á þeirri leynd sem hvíldi yfir hinum svokölluðu ESA-skjölum sem við vorum ekki látin vita af í heilt ár, hvorki þegar fjallað var um Ríkisútvarpið hf. í vor né í haust þegar fjallað var um Ríkisútvarpið ohf.

Það er líka þannig að í október beindi ég tveimur fyrirspurnum til menntamálaráðherra sem varða þjónustusamninginn fræga, þjónustusamningsdrögin sem gerð voru. Ég hef fengið svar við annarri þeirra fyrirspurna en menntamálaráðherra hefur ekki mátt vera að því að svara hinni fyrirspurninni. Hvernig stendur á þessu, forseti, og hvaða eftirlit er það sem forseti þingsins hefur með svörum hæstv. menntamálaráðherra sem í tilviki mínu og hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur varða það mál sem hér er til afgreiðslu? Þetta er ákaflega sérkennilegt og engu líkara en verið sé með skipulegum hætti að leyna upplýsingum frá þingmönnum, ef til vill vegna þess að þær upplýsingar sem nú bárust eru viðkvæmnismál fyrir menntamálaráðherra og þann útvarpsstjóra sem hún réð til starfa, m.a. vegna þess að það stendur ekki til að bæta útvarpinu þetta á neinn hátt og sú upphæð sem gert er ráð fyrir í framtíðartekjumögnun miðast við allt of lágan grunn, þann sem nú er veittur með afnotagjöldum. Menntamálaráðherra er því enn einu sinni í vandræðum út af málinu og ég vona að þeim vandræðum og hinum hæstv. menntamálaráðherra linni hvað úr hverju.