133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

svar við fyrirspurn um fjárhagsstöðu RÚV.

[13:44]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hæstv. menntamálaráðherra sagði að ekkert nýtt væri að koma fram. Það vissu það allir að fjárhagsleg staða Ríkisútvarpsins hefði verið bágborin um langa hríð. Það er alveg rétt. En það óraði engan fyrir því að staðan væri svona slæm. Það óraði engan fyrir því að staðan væri jafnslæm og kemur fram í svari hæstv. menntamálaráðherra til hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur. Ég verð að segja að þegar maður skoðar þetta, mér skilst að þessu hafi verið dreift hér áðan, flettir þessu, lítur á tölurnar þá sér maður að þetta fyrirtæki er á bókstaflega felgunni. Þetta staðfestir náttúrlega það sem við í stjórnarandstöðunni höfum verið að benda á í umræðum, að fjárhagsstaða þessa fyrirtækis væri afskaplega slæm. Og það staðfestir enn og aftur grun okkar, hv. formaður menntamálanefndar, Sigurður Kári Kristjánsson, um að hér sé verið að leggja af stað í vegferð sem muni leiða til þess að þetta fyrirtæki verði selt úr höndum ríkisins og það yrði menningarlegt stórslys, það er bara þannig.

Hér á að fara að koma á fót fyrirtæki sem er miklu, miklu verr statt fjárhagslega en nokkurn óraði fyrir, fyrirtæki með litlu hlutafé. Það á að setja á stofn skattlagningu, nefskatt svokallaðan sem verður alveg örugglega mjög umdeildur í þjóðfélaginu. Það er verið að skapa hér og efna til mikils ófriðar í kringum þetta fjöregg þjóðarinnar sem Ríkisútvarpið er og ég verð að segja það fyrir mína parta og okkar í Frjálslynda flokknum, virðulegi forseti, að við viljum ekki taka þátt í þessu verki. Við treystum okkur ekki til þess að standa að því að þetta mál verði afgreitt sem lög frá hinu háa Alþingi þegar við sjáum í þessu svari hversu ofboðslega slæm staða Ríkisútvarpsins er. Það er hreinlega ekki gerlegt að taka þátt í slíkum gjörningi.