133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

svar við fyrirspurn um fjárhagsstöðu RÚV.

[13:48]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þetta eru auðvitað mjög alvarlegar upplýsingar sem hér koma fram og ég undrast það svolítið að hæstv. menntamálaráðherra skuli ekki gefa nokkur einustu svör við því hvað er hér á ferðinni í þeirri umræðu sem nú fer fram.

Hvað gerir það að verkum að 420 millj. safnast í skuld á fyrstu sex mánuðum síðastliðins árs? Veit hæstv. menntamálaráðherra ekkert um það? Hvaða verkkaup, samningar eða skuldbindingar hafa farið fram í rekstri Ríkisútvarpsins sem gera það að verkum að skuldirnar hlaðast upp með þessum hætti á árinu? Hefur hæstv. menntamálaráðherra engar áhyggjur af því? Er engin ástæða til að gefa þinginu eina einustu skýringu á því hvað liggur að baki 420 millj. kr. skuldar á fyrstu sex mánuðum síðastliðins árs?

Ég hefði talið að það væri svolítill sómi að því fyrir hæstv. menntamálaráðherra að gefa smáupplýsingar um það hvað stendur þarna á bak við. Það getur varla verið að slíkt gerist án þess að menntamálaráðherra hafi um það nokkra einustu vitneskju. Það væri stórundarlegt ef svo væri.

Ég skora á hæstv. ráðherra að gefa einhverjar upplýsingar um þetta. Hæstv. ráðherra hlýtur að vita hvað er hér á ferðinni? Af hverju stafar það? Hvað er verið að gera? Hvað hefur nýr útvarpsstjóri verið að aðhafast?