133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

afgreiðsla frumvarps um RÚV.

[13:53]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég held að það sé rétt sem fram kom í svari forseta að umræðu um Ríkisútvarpið er lokið, en það virðist sem þingmenn stjórnarandstöðunnar séu haldnir einhverjum fráhvarfseinkennum eftir að þeir lögðu af það málþóf sem þeir hófu hér fyrir rúmri viku síðan.

Ég vildi bara upplýsa hæstv. forseta um það út af þeirri beiðni og athugasemdum sem hér hafa komið fram að auðvitað er ekkert nýtt í þessum tölum sem gerir það að verkum að fresta verði atkvæðagreiðslu um þetta mál. Það er ekkert slíkt í þeim tölum sem koma fram í þessu tiltekna svari. Það er margoft búið að gera grein fyrir því hvernig tekið verður á fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins. Hæstv. menntamálaráðherra hefur gert grein fyrir því hvernig farið verður með skuldir og hvaða ráðstafanir verða gerðar í fjáraukalögum.

Það hefur líka komið fram, og við höfum verið með þær upplýsingar í höndunum í meira en eitt ár, að stefnt er að því að eiginfjárhlutfall Ríkisútvarpsins ohf., hins nýja félags, verði 15%. Það hefur líka komið fram og það vita þeir hv. þingmenn sem sátu í hv. menntamálanefnd og hlýddu á Sigurð Þórðarson, sem var skipaður formaður matsnefndar og fenginn var til að útbúa stofnefnahagsreikning fyrir hið nýja félag, að hann lýsti því yfir fyrir nefndinni að stofnefnahagur þessa nýja félags yrði mjög sterkur til rekstrar fyrir næstu (Forseti hringir.) 10–15 árin.

(Forseti (SP): Forseti mælist til þess að hv. þingmaður ræði um fundarstjórn forseta en ekki störf í menntamálanefnd.)

Það er einmitt það sem ég er að gera, frú forseti. Ég er að upplýsa forseta um það að ríkisendurskoðandi sem er formaður matsnefndarinnar sem útbjó stofnefnahagsreikninginn fyrir hið nýja félag er fullkomlega ósammála þeim fullyrðingum sem hér hafa komið fram hjá þingmönnum stjórnarandstöðunnar. (Gripið fram í.) Ég lýsi því hér yfir að ég treysti yfirlýsingum hans betur en yfirlýsingum hv. þingmanna.