133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

afgreiðsla frumvarps um RÚV.

[14:01]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með ræðumanni sem talaði hér á undan, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, taka undir þá frómu ósk að atkvæðagreiðslu verði frestað þannig að þingheimur fái að kynna sér almennilega þetta svar, því að eftir því sem maður skoðar það betur og þær tölur sem liggja fyrir því meira kemur manni á óvart hversu grafalvarleg staða þessa fyrirtækis er. Okkur þingmönnum á hinu háa Alþingi veitir ekki af því og við verðum að fá að kynna okkur þessi gögn almennilega svo við vitum hvað við erum að fara að gera á eftir þegar við greiðum þessu atkvæði, ekki bara stjórnarandstæðingar heldur líka stjórnarliðar, bæði þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ég tek eftir því að Framsóknarflokkurinn heldur sig mjög til hlés og þegir þunnu hljóði á bekkjum þingsins. (Forseti hringir.)

(Forseti (SP): Hv. þingmaður á að ræða um fundarstjórn forseta og haldi sig við það efni.)

Já, ég er að rökstyðja mál mitt, virðulegur forseti.

Ég held að allir þingmenn verði að fá að kynna sér þessi gögn til hlítar. Það verður að gefa þingmönnum tíma til að kynna sér gögnin, þetta svar er upp á 40 síður. Því beini ég þeim óskum til virðulegs forseta að þingheimi verði gefinn kostur á að kynna sér þessi gögn því að þau ættu að geta ráðið úrslitum um t.d. hvort ekki ætti hreinlega að samþykkja frávísunartillögu stjórnarandstöðunnar og frumvarpinu yrði vísað frá. Málið er gersamlega í uppnámi og frumvarpið um Ríkisútvarpið og staða Ríkisútvarpsins er svo slæm að við getum hreinlega ekki gengið til þess verks á eftir að ætla að fara að breyta rekstrarformi þess þegar við sjáum að fjárhagsstaða þess er svo miklu, miklu verri en nokkurn óraði fyrir.