133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

afgreiðsla frumvarps um RÚV.

[14:03]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Það duldist engum sem hlýddi á mál hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að hann var að tala niður til ýmissa af embættismönnum ríkisins með orðbragði sínu áðan. Við getum farið yfir þetta saman, hv. þingmaður, ef hann óskar þess. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á að það sæmir ekki og er rétt að gera athugasemdir við slíkt ef einstakir þingmenn eru hreyta í embættismenn með þeim hætti að reyna að gera lítið úr stefnu stjórnmálamanna. (Gripið fram í.) Þessu skal halda aðskildu. (Gripið fram í.) Ég vil biðja hv. þingmann eftirleiðis að láta embættismenn í friði þegar hann talar hér og vera ekki með persónulegan skæting til þeirra úr þessum ræðustól.