133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:12]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Okkur í þingflokki Frjálslynda flokksins þykir þetta vera afskaplega dapurleg stund þegar gengið verður til þess verks að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Þessi stund er kannski enn dapurlegri en maður bjóst við fyrir þingfund í dag þegar við skoðuðum það svar sem dreift var í þinginu rétt áðan frá menntamálaráðherra til hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, um fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins. Sá illi grunur sem maður hefur haft og við höfum haft allan tímann um að það sem vekti í raun fyrir ríkisstjórnarmeirihlutanum væri að koma þessu fyrirtæki úr höndum ríkisins, staðfestist nú með hverjum degi. Því miður er það svo og við höfum farið yfir það í umræðum að ríkisstjórnarflokkarnir bera ábyrgð á því að hafa grafið markvisst undan Ríkisútvarpinu og fjárhag þess á mörgum undanförnum árum. Nú er sú stund upp runnin að gengið verður til þess verks að breyta rekstrarforminu.

Þetta er náttúrlega enn eitt skrefið í þá átt að fyrirtækið verði hreinlega selt. Það mikill ófriður verður í kringum fyrirtækið, það mikil óánægja verður með skattheimtu og annað að mikil hætta mun myndast á því að fallist verði á að þetta fari úr höndum ríkisins og ég segi enn og aftur: Það mun hafa alvarlegar afleiðingar, að ég tel, fyrir menningu og menningararf þjóðarinnar.

Það er ákaflega dapurlegt á þessari stundu að hafa orðið vitni að því og minnast þess að Framsóknarflokkurinn hefur gersamlega brugðist í málinu. Framsóknarflokkurinn hefur lengi talað fjálglega og fallega um Ríkisútvarpið á hátíðarstundum en það sýnir sig núna að það hafa allt saman verið orðin tóm. Ég vænti þess að þjóðin taki eftir þessu. Ég vænti að þjóðin minnist þá þessarar stundar þegar fram í dregur.

Við í Frjálslynda flokknum höfum tekið þátt með hinum stjórnarandstöðuflokkunum í sameiginlegri afstöðu um Ríkisútvarpið sem áframhaldandi traust og sjálfstætt almannaútvarp. Við höfum allt frá því að þessi umræða hófst, t.d. í vinnu okkar í fjölmiðlanefndinni svokölluðu, staðið með hinum stjórnarandstöðuflokkunum. Þar ítrekuðum við strax ósk allrar stjórnarandstöðunnar um að málið yrði unnið í sátt allra flokka, það er hægt að gera. Því miður völdu ríkisstjórnarflokkarnir aðra vegferð og þeir verða að axla og bera alla ábyrgð á málinu en við munum segja nei í þingflokki Frjálslynda flokksins, virðulegi forseti.