133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:21]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég ætla að setja fram þann spádóm við lok þessarar löngu umræðu að Ríkisútvarpið/sjónvarp verði aldrei einkavætt eða selt. Það mun alltaf verða uppi sá þjóðarvilji og sá pólitíski vilji að ríkið starfræki þjóðarútvarp. Frjálshyggjuþjóðin Bretland ver BBC sem þjóðarútvarp. Ríkisútvarpið verður ekki selt samkvæmt þessari lagasetningu nema það komi aftur til umfjöllunar Alþingis.

Stjórnarandstöðuþingmenn hafa verið hér í pólitískum skollabuxum og blekkingarleik síðustu 10 daga. Einkaaðilar hafa sem betur fer gert sig mjög gildandi í útvarps- og sjónvarpsrekstri hér á landi og er það vel. Þess frelsis nýtur þjóðin í dag. Hér er verið að færa Ríkisútvarpinu úrræði og frelsi til að mæta samkeppni. Það er undarlegt að ríkiskommaflokkur eins og Vinstri grænir skuli leggjast gegn þessari umbótaáætlun og ríkisvæðingu. Ríkisútvarpið má ekki vera eins og hestur í hafti þegar allir vita að rekstur útvarps- og sjónvarpsstöðva í dag er spretthlaup. Sá deyr á markaðnum sem ekki hefur í höndunum frelsi.

Framsóknarflokkurinn styður þetta frumvarp og hefur komið að mörgum athugasemdum og breytingum sem munu styrkja Ríkisútvarpið og gera það betra. Ég er sannfærður um að íslensk þjóð mun átta sig á því, þegar þessu moldviðri lýkur og þessi lög taka gildi, að í kjölfarið eignast hún öflugra og samkeppnishæfara ríkisútvarp. (Gripið fram í.) Við framsóknarmenn styðjum þetta frumvarp.