133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:25]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Auðvitað á að vísa þessu þingmáli frá. Ríkisstjórnin hefur valið eins óréttláta leið til fjármögnunar RÚV og hugsast getur með nefskatti, nefskatti sem leitt getur til þess að fjögurra manna fjölskylda með tvo unglinga í heimili gæti þurft að greiða nálægt 60 þús. kr. nefskatt. Þúsundir fjármagnseigenda sem eingöngu hafa fjármagnstekjur sér til framfærslu, sem skipt geta tugum og hundruðum milljóna á ári, sleppa aftur á móti við að greiða nefskattinn. Fáránlegustu dæmi sem um getur í jaðarsköttum munu líka birtast í þessum nefskatti því að lífeyrisþegum sem skríða rétt yfir skattleysismörkin og afla sér kannski 5 þús. kr. tekna fram yfir skattleysismörk er refsað með tæplega 15 þús. kr. nefskatti. Þarna sýnir ríkisstjórnin auðvitað sitt rétta andlit. Þetta frumvarp er meingallað og til háborinnar skammar hvernig ríkisstjórnin er með fjármögnun RÚV að auka á ójöfnuðinn í þjóðfélaginu og hygla fjármagnseigendum og skilja réttindi starfsmanna eftir í uppnámi.