133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:29]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Stjórnarandstaðan stendur sameinuð að þessari tillögu að málinu verði vísað frá. Frumvarpið er meingallað, það hefur margoft verið bent á það og reynt mjög að koma vitinu fyrir stjórnarliða en það hefur því miður ekki tekist. Við getum til að mynda tekið hinn alræmda nefskatt. Því miður virðast ekki allir vera með nef í þessu landi því að margir eru undanþegnir honum og í þann hóp falla auðmenn landsins. Það er enn ein staðfestingin á því hvernig þessi ríkisstjórn með sínu endalausa auðmannadekri mylur undir þær stéttir sem standa best í landinu á meðan lamið er miskunnarlaust á þeim sem minna mega sín. Þetta er ekki til fyrirmyndar svo vægt sé til orða tekið.

Svarið sem hér liggur fyrir í dag leiðir það líka í ljós að málið er illa undirbúið. Hæstv. landbúnaðarráðherra sagði áðan að Ríkisútvarpið mætti ekki vera eins og hestur í hafti. (Forseti hringir.) Nú er varaformaður Framsóknarflokksins að leiða Ríkisútvarpið eins og lamb til slátrunar.