133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:53]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Íhaldið í Reykjavík var búið að einkavæða strætó hér á árunum en félagslegur meirihluti R-listans sneri þeirri einkavæðingu til baka. Þar í hópnum voru framsóknarmenn. Það sama þarf að gera hér og verður vonandi gert innan fárra mánaða.

Það er hins vegar sláandi og tímanna tákn að hér er svo komið fyrir aumingja vesalings Framsóknarflokknum að hann stendur að því með Sjálfstæðisflokknum að einkavæða almannaútvarpið á Íslandi, Ríkisútvarpið okkar allra, eina helgustu og mikilvægustu menningarstofnun þjóðarinnar. (Gripið fram í: Einkavæða?) Einkavæða það, já, breyta úr opinberum rekstri yfir í form einkarekstrarins. Það segir sína sögu um ástandið á stjórnarheimilinu að stjórnarliðar virðast ekki hafa hugmynd um hvað þeir eru að gera hér. (Gripið fram í.) Það er forgangsverkefni, frú forseti, að loknum kosningum að færa þjóðinni aftur Ríkisútvarpið sitt. Ég segi nei.