133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:59]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég hef sagt að ég er ekki á móti hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins í sjálfu sér ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt, en þau skilyrði eru ekki uppfyllt eins og ítrekað hefur verið bent á. Til dæmis þarf sjálfstæði fjölmiðilsins að vera að öllu leyti tryggt en bæði Félag fréttamanna og Hollvinasamtök RÚV hafa efasemdir um að svo sé í þessu frumvarpi. Þá eru einnig vísbendingar um að frumvarpið standist ekki kröfur samkeppnisréttarins eins og Samkeppniseftirlitið bendir á og það er grafalvarlegt að mínu mati.

Það er sömuleiðis fjölmargt í þessu frumvarpi sem ég get ekki sætt mig við svo sem þátttöku ríkisfjölmiðilsins á auglýsingamarkaði, nefskattinn, óvissuna um réttindi starfsfólks, meirihlutavald ríkisstjórnarinnar í hinu nýja útvarpsráði o.s.frv. Frú forseti. Ég hef aldrei sagst ætla að styðja þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar en fyrir utan þá annmarka sem ég hef hér bent á rýfur frumvarpið að auki þann frið sem hefur ríkt um Ríkisútvarpið. Þess vegna segi ég nei, frú forseti.