133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

auglýsingar um fjárhættuspil.

[15:05]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fjárhættuspil og spilafíkn hafa verið mikið til umræðu í þjóðfélaginu að undanförnu. Fyrir þessu eru margar ástæður. Í fyrsta lagi veldur spilafíkn fjölda fólks svo þúsundum skiptir miklum vandræðum, jafnvel svo miklum að það leggur lífið í rúst. Þetta snertir þá sem í hlut eiga, þá sem sjálfir eru haldnir spilafíkn og iðulega stóran aðstandendahóp þeirra einnig. Þetta er því hrikalegt þjóðfélagsmein sem ekki verður vikist undan að ræða.

Í öðru lagi hafa fjárhættuspil komist í kastljós fjölmiðla fyrir tilstilli samtaka á borð við Samtök áhugafólks um spilafíkn sem hafa verið óþreytandi við að vekja athygli á vandanum, veita fólki leiðbeiningar og aðstoð og stuðla að umræðu um þetta málefni. Vil ég í því sambandi vekja athygli á heimasíðu samtakanna, spilavandi.is.

Þriðja ástæðan fyrir því að spilavandinn er kominn í umræðu sem aldrei fyrr er að borgaryfirvöld í Reykjavík með borgarstjórann í broddi fylkingar hafa vaknað til vitundar um ábyrgð sína. Því ber sérstaklega að fagna, svo og þeim fjölmiðlum sem hafa sinnt þessum málum að undanförnu eða staðfastlega um langt skeið og nefni ég þar sérstaklega Morgunblaðið sem að mínu mati hefur sýnt mikla ábyrgðarkennd í umfjöllun um þetta málefni.

Fjórða ástæðan fyrir því að nú fer fram mikil umræða um spilafíknina er sú staðreynd að opnað hefur verið spilavíti á netinu sem auglýst hefur verið á Íslandi. Spilavíti á netinu er engin nýlunda en spilavíti að hluta til í eigu Íslendinga auglýst á Íslandi á netinu og í íslenskum fjölmiðlum er nýlunda. Við borgum, þú spilar, er auglýst í rúllettuspilum hjá Betsson, auglýsingu sem hæglega mætti snúa við því að að sjálfsögðu eru það spilafíklarnir sem borga gróðann til Betssons og annarra sem gera sér sjúklega spilafíkn fólks að féþúfu.

Stundum hefur verið komist svo að orði að um tvenns konar spilafíkla sé að ræða, þá sem spila og hina sem hagnast á fíkn þeirra. Ég hef iðulega fundið fyrir heift síðarnefndu fíklanna þegar fundið er að athæfi þeirra. Áhugafólk um spilafíkn hefur gert sitt til að sporna gegn útbreiðslu spilakassa, takmarka aðgengi að þeim, draga úr áreiti þeirra en þess má geta að Háskóli Íslands rekur samtengda spilakassa sem auk þess eru að öðru leyti áreitnir, enda spilavíti háskólans kölluð Háspenna og mundu ekki standast reglur sem settar eru um þessa starfsemi víða um lönd. Allt þetta þarf að skoða af fullri alvöru. Einnig þarf að taka alvarlega ábendingar samtakanna um að nú sé vaxandi ásókn í fjárhættuspil á netinu og þar þurfi að reisa rönd við. Þetta ber stjórnvöldum að gera, ekki einvörðungu af siðferðilegum ástæðum heldur einnig lagalegum því um skýlaust lögbrot er að ræða.

Samkvæmt íslenskum lögum eru fjárhættuspil bönnuð. Með sérstökum lögum var Háskóla Íslands og ýmsum samtökum og stofnunum heimilað að reka spilavíti þótt ýmsir beri brigður á að þau hafi starfað löglega því að reglugerð skorti um þessa starfsemi allt til ársins 2005 en kveðið var sérstaklega á um það í lögum að þessa starfsemi bæri að byggja á slíkri reglugerð.

Hvað um það, nú er kominn fram á sjónarsviðið aðili sem tvímælalaust brýtur landslög og það er fyrrnefnt fyrirtæki, Betsson. Ég beini tveimur spurningum til hæstv. dómsmálaráðherra af þessu tilefni:

Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera til að stemma stigu við ólöglegum fjárhættuspilum á netinu og auglýsingum um þá starfsemi?

Í öðru lagi, hæstv. dómsmálaráðherra, leyfi ég mér að vísa í álitsgerðir sérfræðinga sem unnið hafa að rannsókn á þessum málum fyrir hönd Samtaka áhugafólks um spilafíkn og er að finna á heimasíðu þeirra samtaka. Þar kemur fram að tæknilega er unnt að reisa skorður við fjárhættuspilum á netinu og ég spyr hæstv. ráðherra í framhaldinu: Er dómsmálaráðherra tilbúinn að setja niður nefnd, þá hugsanlega með sérfræðingum tilnefndum af Samtökum áhugafólks um spilafíkn, fulltrúum banka og kreditkortafyrirtækja til að setja reglur sem stemma stigu við þessari ólöglegu starfsemi?